Reimar Snæ­fells Péturs­son, lög­maður fjögurra þing­manna Mið­flokksins í Klausturs­málinu svo­kallaða, hefur kallað eftir mynd­skeiðum úr öryggis­mynda­vélum Klausturs bar. Hann telur mynd­efnið geta varpað ljósi á at­vikið og „hversu sterkur á­setningur var til brotsins“. Þá sagði hann upptökur hugsanlega geta varpað ljósi á hvort einhverjir framkvæmdu brotið með henni.

Þetta kom fram í máli hans í Héraðs­dómi Reykja­víkur nú klukkan 15. Hann sagðist telja mikil­vægt að fá mynd­efnið í hendurnar til þess að geta séð ná­kvæm­lega hvernig Bára Hall­dórs­dóttir fór að því að taka upp sam­tal sex þing­manna á barnum. 

Hann sagði mynd­skeiðið geta varpað glöggvu ljósi á málið enda eigi þar að vera hægt að sjá hvernig Bára „hélt upp­tökunni leyndri, hvaða að­ferðum hún beitti, og hversu sterkur á­setningur var til brotsins.“ Hann bætti því við að hægt eigi að vera að sjá hvort ein­hverjir hafi fram­kvæmt brotið með henni. Bára hló hljóð­lega að orðum lög­mannsins. 

Þá sagðist Reimar telja að frek­lega hafi verið brotið á rétti fjór­menninganna til frið­helgi einka­lífsins. Um hafi verið að ræða einka­sam­tal sem þeir áttu á Klaustri þegar það var hljóð­ritað af þeim ó­af­vitandi og gert opin­bert. Þeir sem gerist upp­vísir af slíku lög­brotum séu skaða- og miska­bóta­skyldir.

Hann sagði að með myndbandsupptökum úr eftirlitsmyndavélum ætti að vera hægt að sjá hvovrt einhverjir „framkvæmdu brotið með henni“. Við þessi orð lögmannsins skellti Bára upp úr en náði að bæla niður hláturinn. Reimar sagði að það væri einkennilegt að varnaraðilinn í málinu mótmælti þessari beiðni. „Af hverju má ekki bara skoða þetta myndefni og hvað átti sér stað þarna? Hverju hefur varnaraðili að leyna?

Auður Tinna Aðalbjarnardóttir flutti málið fyrir hönd Báru. Hún sagði meðal annars að Bára hefði lýst því með ítarlegum hætti hvernig staðið hefði verið að upptökunum í viðtali við Stundina.

Reimar svaraði því til í andsvörum að viðtal við blaðamann hefði enga lagalega þýðingu, nema af hún hefði sagt eitthvað sem væri henni óhagstætt. „Það getur aldrei haldið fyrir dómi. Það fylgir því engin ábyrgð að ræða máið við blaðamann. Eitthvað viðtal við blaðamann hefur enga þýðingu fyrir dómi.“

Reimar sagði líka að Bára hefði líst því yfir að hún væri ekki borgunarmanneskja fyrir greiðslu miskabóta, ef til þeirra kæmi. „Þá er ástæða til að athuga hverjir voru með henni,“ sagði Reimar við litla hrifningu sumra gesta í dómssalnum. „þetta snýst um að leiða í ljós hvað gerðist þarna.“

Dómarinn sagði þegar báðir lögmenn höfðu lokið málinu sínu að úrskurður yrði vonandi kveðinn upp fyrir helgi. „Við reynum okkar allra besta,“ sagði hann.