Katrín Jakobs­dóttir for­sætis­ráð­herra segist telja að allar líkur séu á því að meiri­hluti lands­manna verði bólu­settur fyrir Co­vid-19 á fyrri hluta þessa árs. Hún segir að erfitt sé að mæta kröfum fólks um fyrir­sjáan­leika í bólu­efna­málum því staðan breytist nánast dag frá degi.

Katrín var gestur í Sprengi­sandi á Bylgjunni í morgun þar sem hún fór yfir bólu­efnasamninga Ís­lands. Ríkisstjórnin hefur sætt nokkurri gagn­rýni, til dæmis frá Kára Stefáns­syni, for­stjóra Ís­lenskrar erfða­greiningar, fyrir að hafa á­kveðið að vera í sam­floti með Evrópu­sam­bandinu í gerð samninga við bólu­efna­fram­leið­endur.

„Við á­kveðum að fara í sam­starf með Evrópu­sam­bandinu og Noregi. Ein­hverjum hefur ekki þótt það góð hug­mynd. Ég tel að það hafi verið rétt á­kvörðun. Af hverju? Jú, með þeim hætti þá bæði njótum við sam­starfs við aðrar þjóðir, njótum á­kveðins fag­legs styrk­leika, til dæmis frá Lyfja­stofnun Evrópu, og gerðir eru samningar við ólík fyrir­tæki,“ sagði Katrín í þættinum.

Horfurnar góðar

Ís­land hefur þegar fengið um tíu þúsund skammta af bólu­efni Pfizer og er búið að bólu­setja tæp­lega fimm þúsund manns með fyrstu um­ferð þess. Í lok mars á af­hending fimm­tíu þúsund skammta frá Pfizer að vera lokið en við fáum nú um þrjú til fjögur þúsund skammta til landsins í hverri viku. Katrín segir að bólu­efni Moderna ætti svo að fá markaðs­leyfi frá Evrópu­sam­bandinu á morgun. Ís­land hefur tryggt sér 128 þúsund skammta af því, sem duga fyrir um 64 þúsund ein­stak­linga.

„Síðan væntan­lega skýrast af­hendingar­á­ætlanir Moderna í kjöl­farið. Bara á næstu dögum,“ segir hún. „Ég skil alveg þá sem segja „við viljum bara fá að vita hvort þetta verði búið 15. mars, 15. júní eða 15. septem­ber“. Ég skil það mjög vel og eðli­lega er ó­þreyja í fólki. En það er í raun og veru ekki hægt því við erum að sjá hlutina taka breytingum bara dag frá degi.“

Hún segir að bólu­efnið sé nú eftir­sóttasta vara heims en út­lit sé fyrir að fram­boð af því verði mun meira á næstu mánuðum. Bæði þegar bólu­efni Moderna hefur verið sam­þykkt en einnig þegar verk­smiðja Pfizer í Evrópu verður tekin í notkun. Það á að gerast í febrúar.

Gæta hagsmuna landsins á öllum vígstöðvum

„Mínar væntingar standa til þess að við verðum komin með meiri­hluta lands­manna bólu­settan hér á fyrri­hluta árs. Og ég held að það séu allar líkur til þess að það gangi eftir svona út frá því hvað þetta er að gerast hratt í kring um okkur,“ segir Katrín. Hún vonast þá einnig til að Pfizer á­kveði að fallast á hug­mynd sótt­varna­læknis um að fram­kvæma hér rann­sókn á virkni bólu­efnisins. Þá fengi Ís­land mun fleiri skammta af bólu­efninu fyrr.

„Við höfum í raun verið að nálgast þetta þannig að við séum að gæta okkar hags­muna á öllum víg­stöðvum, hvort sem er í þessu sam­starfi þjóða eða út frá ein­hverjum svona hug­myndum,“ segir for­sætis­ráð­herrann.

Hún segir þó að það muni um hverja sendingu sem við fáum. Hvert og eitt skref, þó það sé lítið, hafi gríðar­leg á­hrif á sam­fé­lagið. Það komi til dæmis í ljós eftir tæpar þrjár vikur þegar þeir í­búar hjúkrunar­heimila, sem fengu fyrri um­ferð bólu­setninga nú í lok desember með fyrstu bólu­efna­skömmtunum, fá sína seinni um­ferð. Þá verða þeir komnir með mót­efni og geta fengið til sín gesti í heim­sókn.