Sam­tök at­vinnu­lífsins mót­mæla til­lögu Eflingar um sam­úðar­verk­fall starfs­manna einka­rekinna skóla og sveitar­fé­laga en Efling boðaði til at­kvæða­greiðslu um málið síðast­liðinn föstu­dag og hófst hún á há­degi í dag. Í bréfi SA til Eflingar kemur fram að þeir telji boðun verk­fallsins, sem er ætlað að styðja við verk­fall Eflingar gagn­vart Reykja­víkur­borg, vera ó­lög­mæta.

„Að mati SA verður sam­úðar­verk­fall ekki lög­lega boðað ef það hefur á­hrif á skipan kjara­mála hjá þeim aðila sem sam­úðar­verk­fallið beinist að,“ segir í bréfi SA til Eflingar og vitna þau til dóms Fé­lags­dóms þar sem kemur fram að skil­yrði sam­úðar­verk­falls sé að því sé ekki ætlað að hafa á­hrif á samnings­bundna skipan mála milli þess aðila sem að verk­fallinu stendur og hins sem það verður að þola.

Sam­tök At­vinnu­lífsins telja að með sam­úðar­verk­falli séu starfs­menn orðnir beinir þátt­tak­endur með það að mark­miði að bæta eigin kjör. „Komi til þess að sam­úðar­verk­fall verði boðað munu Sam­tök at­vinnu­lífsins, f.h. SSSK [Sam­tök sjálf­stæðra skóla], höfða mál fyrir Fé­lags­dómi til að fá verk­falls­boðun hnekkt,“ segir að lokum í bréfinu.

Mörg fordæmi fyrir samúðarverkföllum

„Það er gömul saga og ný að það sé látið reyna á málin fyrir Fé­lags­dómi og það er bara eðli­legur hluti af þessu. Við erum vel undir það búin,“ segir Viðar Þor­steins­son, fram­kvæmda­stjóri Eflingar í sam­tali við Frétta­blaðið en hann segir mót­mæli SA ekki hafa komið þeim á ó­vart. „Við gerðum í rauninni ráð fyrir því.“

Ef verk­falls­boðunin verður sam­þykkt er gert ráð fyrir að verk­föllin komi til með að hefjast níunda mars næst­komandi og ná til allt að fimm hundruð manns en at­kvæða­greiðslu lýkur á laugar­daginn. „Í stuttu máli þá eru sam­úðar­verk­föll lög­leg og mörg for­dæmi fyrir því og við höfum ekki trú á öðru en að Fé­lags­dómur muni stað­festa það, eins og hann hefur áður gert,“ segir Viðar og bætir við að hann hafi fundið fyrir miklum stuðningi.

Ríkis­sátta­semjari hefur boðað til fundar milli samninga­nefndar Reykja­víkur­borgar og Eflingar en hann hefst klukkan 13 á morgun. Efnt hefur verið til bar­áttu- og stuðnings­fundar í Iðnó og eru fé­lagar í Eflingu, for­eldrar leik­skóla­barna og aðrir stuðnings­menn hvattir til að mæta.