„Mín viðbrögð eru þau að ég held að hér hafi bara verið framkvæmd brottvísun sem var fullkomlega eðlileg,“ segir Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra um brottvísun fimmtán manns til Grikklands sem átti sér stað í gærnótt.

Hann tók fram að um væri að ræða einstaklinga sem allir hafa fengið sína málsmeðferð og að lögregla hafi verið að framfylgja lögum og reglum.

„Auðvitað reynum við alltaf í byrjun að gera þetta í samvinnu við fólkið sem hefur fengið niðurstöðu í sínum málum,“ segir hann og bætir við að ríkið greiði yfirleitt fyrir brottförina. „Ef að það tekst ekki í samvinnu við fólkið, að framfylgja íslenskum lögum, þá verður að gera þetta með ákveðinni valdbeitingu. Og lögreglan var ekki að gera neitt annað en að framfylgja þeirri niðurstöðu,“ segir hann.

Jón bætir við að lögregla þurfi að hafa ákveðna leynd yfir sínum málum, og minnist þess að það eigi eftir að vísa á brott þeim þrettán sem ekki fundust.

Jón sagðist hafa fulla samúð með fólkinu sem var flutt úr landi.
Fréttablaðið/Anton Brink

Hefur enga skoðun á því hvernig lögregla framkvæmir einstaka aðgerðir

„Í sjálfu sér hef ég enga skoðun á því hvernig lögregla framkvæmir einstaka lögregluaðgerðir,“ segir dómsmálaráðherra. „Þau gera það eftir sinni bestu getu og vitund. Hvenær sólarhringsins þetta er framkvæmt, ég get ekki haft neina skoðun á því.“

Þá segist Jón hafa fulla samúð með fólkinu sem var flutt á brott og segir að um sérstaklega viðkvæmt mál sé að ræða. Auk þess skilst honum að flutningurinn á fatlaða manninum hafi verið framkvæmd „með eins mildum hætti og hægt var.“

Hann tekur þó fram að ásakanir um að brotið hafi verið á réttindum mannsins verði skoðaðar.