Inga Sæland, alþingismaður og formaður Flokks fólksins, telur að blóðtökubændur sem lyfjafyrirtækið Ísteka rifti samningum vegna ólíðandi meðferðar hrossa, hafi mögulega skipt um kennitölu og ætli að halda iðjunni áfram.

Á undanförnum árum hefur blóðtaka á fylfullum hryssum verið stöðvuð á fimm bæjum en Ísteka rifti einnig samningum við tvo samstarfsbændur eftir að rannsókn MAST á dýraníði hófst vegna myndbirtingar dýraverndarsamtakanna AWF/TSB.

Inga segist hafa heyrt að uppsögn við þessa bændur sé einungis í orði en langt frá því að vera á borði.

„Einn um­svifa­mesti blóðmera­bóndi Ísteka ein­ung­is skipt um kenni­tölu til að halda iðjunni hindr­un­ar­laust áfram?“ skrifar Inga í pistli sem hún birti í Morgunblaðinu í dag.

„Blóðið er sogið úr þeim fyr­ir líf­tæknifyr­ir­tækið Ísteka sem býr til frjó­sem­is­lyf fyr­ir gylt­ur. Sem sagt meira svína­kjöt fyr­ir neyt­end­ur með öllu því dýr­aníði sem því fylg­ir, meira bei­kon.“

Allt þetta til að ná í vaxtarhormón

Inga segir að vel á annað hundrað bændur hafi haft samband við sig og þakkað sér fyrir að berjast gegn dýraníði með frumvarpi sínu um bann á blóðmerahaldi.

Hún furðar sig á umsögn þriggja blóðmerabænda sem fullyrða að blóðmerar lifi og geti lifað náttúrulegu og góðu lífi.

„Það er með hrein­um ólík­ind­um að lesa slík­ar yf­ir­lýs­ing­ar,“ segir Inga. Hún rifjar upp samtal sem hún átti við bónda um hvað raunverulega eigi sér stað við blóðtöku á fylfullri „ótemju“.

„Bóndi nokk­ur spurði mig t.d. hvort ég gerði mér grein fyr­ir því hvernig þyrfti að lemja, berja og misþyrma ótemju til að koma henni inn í þetta spít­narusl sem kall­ast blóðtöku­bás,“ skrifar Inga.

„Allt þetta til að ná í vaxt­ar­horm­ón sem hryss­urn­ar fram­leiða á fyrstu stig­um meðgöng­unn­ar fyr­ir fol­aldið sitt svo það geti dafnað eðli­lega, sem það ger­ir að sjálf­sögðu ekki. Blóðið er sogið úr þeim fyr­ir líf­tæknifyr­ir­tækið Ísteka sem býr til frjó­sem­is­lyf fyr­ir gylt­ur. Sem sagt meira svína­kjöt fyr­ir neyt­end­ur með öllu því dýr­aníði sem því fylg­ir, meira bei­kon.“

Kort af um 40 blóðtökubæjum en rúmlega hundrað eru starfandi í dag.
Mynd: AWF

Ísland er aðeins eitt af fjórum löndum í heiminum þar sem blóðmerahald er stundað, hin löndin eru Argentína, Kína og Úrúgvæ. Frjósemislyf er framleitt úr blóði íslenskra hryssa og notað í verksmiðjubúskap erlendis til að auka afkastagetu svína- og kúabúa.

Lyfjatæknifyrirtækið Ísteaka er eina fyrirtækið með leyfi til að vinna efni úr blóði fylfullra hryssa en fyrirtækið gerir samninga við bændur en rekur einnig þrjár starfsstöðvar fyrir blóðtöku og eiga 283 blóðmerar.

Umfjöllun um blóðtöku úr fylfullum merum komst í hámæli í lok nóvember þegar svissnesku dýrasamtökin Animal Welfare Foundation, AWF, ljóstruðu upp um dýraníð á blóðtökubæjum hér á landi. Skýrsla þeirra og heimildarmynd sýndi fram á að dýralæknar, sem starfa samkvæmt leyfi MAST, fylgdust aðgerðalausir með hundum og mönnum níðast á blóðmerum.

Rannsóknir

  • Matvælastofnun hefur lokið rannsókn sinni á meðferð hryssna við blóðtöku og vísað málinu og þeim gögnum sem fyrir liggja til lögreglu til frekari rannsóknar og aðgerða.
  • Svandís Svavarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur skipað starfshóp til að fjalla um blóðtöku úr fylfullum hryssum. Iðunn Guðjónsdóttir, sérfræðingur í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, leiðir starfshópinn.

Leggjast gegn blóðmerahaldi

  • Mikill meirihluti þjóðarinnar er andvígur blóðmerahaldi samkvæmt skoðanakönnun Prósents
  • Rúmlega sex þúsund manns hafa skrifað undir undirskriftalista um að banna blóðmerahald
  • Stærstu hestasamtök Íslands og Alþjóðasamtök íslenska hestsins, FEIF, hafa skorað á íslensk stjórnvöld að stöðva blóðmerahald
  • Ís­lands­stofa segir blóð­mera­hald harðan skell fyrir í­mynd landsins
  • Dýraverndarsamtök bæði hérlendis og erlendis vilja stöðva blóðmerahald tafarlaust
  • Óháðir dýralæknar segja meðferð á blóðmerum og þær aðferðir sem beitt er á Íslandi séu með öllu óskiljanlegar og ósamboðnar siðmenntaðri þjóð