Kastljós heimsins færist í auknum mæli á Kínverja, aðgerðir þeirra eða aðgerðaleysi, þegar kemur að stríðinu í Úkraínu. Helgi Steinar Gunnlaugsson, alþjóðastjórnmálafræðingur sem nam í Kína, telur að afstaða Kínverja muni skýrast betur á komandi vikum. Eftir því sem á líður verður verra fyrir Kínverja að gera ekki neitt.

„Kínverjar eru á milli steins og sleggju,“ segir Helgi. „Í gegnum tíðina hafa þeir ásakað Bandaríkjamenn fyrir að vera stríðsglaðir og því væri það hræsni af Kínverjum að styðja við stríð núna.“

Fregnir hafa borist af því að Rússar hafi beðið Kínverja um hergagnaaðstoð en Kínverjar neitað að slík beiðni hafi borist. Bandaríkjamenn hafa á hinn bóginn hótað Kínverjum viðskiptaþvingunum aðstoði þeir Rússa við að komast hjá þeim þvingunum sem Vesturveldin hafa sett á þá.

Helgi telur líklegt að Vladímír Pútín Rússlandsforseti hafi búist við meiri stuðningi frá Kína en raun ber vitni. Á Vetrarólympíuleikunum í byrjun febrúar lýstu Pútín og Xi Jinping, leiðtogi Kína, því yfir að vinarþel þjóðanna ætti sér engin takmörk. Kínverjar hafa hins vegar verið þöglir og sátu til dæmis hjá í kosningu Sameinuðu þjóðanna um hvort fordæma ætti innrásina.

„Rússar og Kínverjar hafa í gegnum tíðina verið vinir, en aðeins þegar það er hentugt,“ segir Helgi. „Þeir eru alveg eins fljótir að snúast gegn hvor öðrum.“

Helgi telur einnig líklegt að Kínverjar hafi ekki búist við allsherjar innrás og heldur ekki við að Vesturlönd og umheimurinn myndi bregðast svo harkalega við henni. Einkum í ljósi þess hversu lítil viðbrögðin voru við hernámi Krímskaga árið 2014.

Í trausti þess hafi Kínverjar sjálfir farið fram með þjösnaskap í Suður-Kínahafi.

„Kínverjar eru örugglega að endurhugsa afstöðu sína til mögulegrar innrásar í Tævan,“ segir Helgi.

Varkárni er það sem einkennir kínversk utanríkismál núna enda staðan flókin. Þó að Vesturlönd ættu erfitt með að setja viðskiptaþvinganir á landið, séu Kínverjar mun háðari Vesturlöndum en Rússar. Viðskiptalega séð séu Rússar einnig mun háðari Kínverjum en öfugt. Þá er Kína einnig stærsta viðskiptaland Úkraínu og viðskiptalega séð skipti Úkraína og Rússland Kínverja jafn miklu máli.

Stefna Kínverja til langs tíma sé að taka við af Bandaríkjunum sem leiðandi þjóð á sem flestum sviðum. En það vilji þeir gera innan marka alþjóðalaga og alþjóðakerfisins, til dæmis með miklum fjárfestingum á erlendri grundu í formi verkefnisins Belti og braut. Lögmæti ríkisstjórnar Kína sé byggt á þjóðernishyggju annars vegar en efnahagsgróða og stöðugleika hins vegar. Þessu vilji Kínverjar ekki hrófla við.

Að sama skapi þurfi Kínverjar líka bandamenn til framtíðar, gegn Bandaríkjunum.

„Rússar eru líklegastir til þess að vera bandamenn þeirra,“ segir Helgi.

Kínverjar hafa því að einhverju leyti mildað efnahagshöggið sem Vesturveldin hafa reitt Rússlandi. Til að mynda hefur Union Pay komið í staðinn fyrir VISA og Mastercard sem yfirgáfu landið og kínverskir bankar unnið með rússneskum. Helgi segir þó takmarkað hvað Kínverjar geti gert, því ef þeir aðstoða of mikið séu þeir að styðja við stríð.

„Kína er frekar stjórnað af pragmatisma en hugmyndafræði,“ segir Helgi.