„Mér líst illa á hugmyndir um að endurvekja framleiðslu á áburði innanlands. Ég held að svoleiðis verksmiðja myndi auka losun gróðurhúsalofttegunda töluvert,“ segir Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands.

Bændur vilja endurreisa áburðarframleiðslu innanlands eins og Fréttablaðið fjallaði um á föstudag. Árni bendir á að þegar áburðarverksmiðjan í Gufunesi var lögð niður hafi orðið jákvæð umhverfisáhrif af minni losun.

„Ég held að svona verksmiðja myndi ekki falla undir stóriðju, hluta af samevrópska ETS-kerfinu, heldur myndi losunin lenda á Íslandi. Það yrði töluvert álag fyrir loftslagsstefnu Íslands,“ segir Árni.

Einnig megi spyrja hvort einka­aðilar myndu fjárfesta í verksmiðjunni eða hvort bændur vænti þess að ríkið borgi brúsann.

„Þetta yrðu dýr störf og ekki mörg. Ég held þetta sé ekki raunhæf hugmynd. Varla eru bændur sjálfir að fara að borga fyrir svona verksmiðju, að ekki sé talað um hin neikvæðu umhverfisáhrif,“ segir Árni.