Það er orðið rannsóknarefni að mati Vigdísar Hauksdóttur, fulltrúa Miðflokksins í borgarráði, hvað keypt er af sérfræðiþjónustu – bæði hjá borginni, B-hluta fyrirtækjum og Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Vigdís spurði um ráðgjafafyrirtækið Strategíu í borgarráði og birtist svar við fyrirspurn hennar í borgarráði á fimmtudag. Fyrirtækið hefur fengið tíu verkefni hjá borginni og fengið 28 milljónir greiddar fyrir .

„Ég trúi bara ekki að borgin skuli vera að kaupa svona ofboðslega ráðgjöf. Til þess erum við kosin, til að stýra borginni. Þrjátíu milljónir á tveimur árum er vel í lagt finnst mér,“ segir Vigdís.

Hún segist ekkert hafa á móti fyrirtækinu en gagnrýnin snúist um óþarfa peningaeyðslu hjá borgaryfirvöldum. Guðrún Ragnarsdóttir, einn af eigendum Strategíu, segir að fyrirtækið sé sjö ára gamalt og upphæðin sé ekki mjög há miðað við önnur ráðgjafafyrirtæki. „Eins og kemur fram í svari borgarinnar þá er gerð verðkönnun varðandi verkefnin og við vorum það heppnar að fá nokkur af þeim og höfum sinnt þeim eins vel og við getum. Það er ekkert annað hægt en að vera stolt af okkar vinnu,“ segir hún. „Við vorum nokkuð ánægðar eftir fund borgarráðs þegar skýrsla okkar var kynnt og Vigdís hrósaði okkur fyrir vel unnin störf,“ bætir Guðrún við.