„Í mínum huga er þetta ekki endilega rétta röðin,“ sagði Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í þættinum 21 á Hringbraut í gærkvöldi um forgangshópa við bólusetningu gegn COVID-19. Væntanleg forgangsröðun stjórnvalda við bólusetningar á næsta ári er að setja heilbrigðisstarfsfólk í fremsta flokk.

„Þegar við skoðuðum mótefni í Íslendingum þá leituðum við sérstaklega eftir mótefnum hjá starfsmönnum Landspítalans og Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu og komumst að raun um að það var nákvæmlega sami hundraðshluti af heilbrigðisstarfsmönnum og Íslendingum almennt sem höfðu sýkst sem bendir til þess að heilbrigðisstarfsmenn séu ekkert meira útsettir fyrir smiti heldur en aðrir,“ segir Kári.

Þróun bóluefna tveggja lyfjafyrirtækja, Pfizer með BioNtech og Moderna, gegn COVID-19 er langt á veg komin. Bóluefnaþróunin hefur orðið á „örskammri stundu“, segir Kári, hún taki vanalega fimm til tíu sinnum lengri tíma og nú sjáist að lyfjaiðnaðurinn geti unnið margfalt hraðar.

„Það er búið að prófa þessi bóluefni á mjög stórum hópi manna,“ segir Kári, eða á 74 þúsund manns, og ekkert hefur gefið til kynna að það sé ekki öruggt.

„Það skiptir mestu máli að bæði bóluefnin verja í kringum 95 prósent þeirra sem eru útsettir fyrir smiti. Það er ekkert sem bendir til þess að af þeim hljótist alvarlegar aukaverkanir,“ fullyrðir Kári. Efnið virðist ekki beina ónæmiskerfinu að manninum sjálfum heldur eingöngu að veirunni.

Þáttinn 21 með viðtalinu má finna á vef Hringbrautar.