Það að greiða veiðigjöld af afla þremur árum eftir að hann er veiddur er léttvægt vandamál og kallar ekki eitt og sér á lagabreytingu á veiðigjöldum og frumvarp Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegsráðherra um breytingu á lögunum gæti gefið útgerðarmönnum hvata til að verðleggja fisk í innbyrðis viðskiptum eins lágt og hægt er og skerða þannig hlut sjómanna og lækka veiðigjöld til þjóðarinnar.

Þetta er mat Þórólfs Matthíassonar, prófessors í hagfræði við Háskóla Íslands. Hann hefur sent atvinnuveganefnd þingsins greinargerð vegna frumvarpsins þar sem hann fer yfir helstu vankanta þess.

Í frumvarpi ráðherrans mun veiðigjald aðeins reiknast á veiddan fisk og er fiskvinnslum haldið fyrir utan veiðigjöldin. Þórólfur bendir á að útgerðir og fiskvinnslur séu í mörgum tilvikum tengdir aðilar og semji því við sjálfar sig um verðið á fiskinum. Verðið á fiskinum til fiskvinnslunnar ákvarðar því veiðigjöldin. „Verði frumvarpið að lögum með óbreyttum ákvæðum hvað þetta varðar munu útgerðarmenn fá viðbótarhvata til að verðleggja fisk í innbyrðis viðskiptum á sem lægstu verði. Slík aðgerð mundi bæði lækka launakostnað og framtíðarveiðigjald,“ segir Þórólfur.

Hann segir einnig að sjóðstreymisvandi fyrirtækjanna, að greiða veiðigjöld vegna afla nokkru áður, sé ekki stórt vandamál. „Vandinn tengdur greiðslu veiðigjalds er ekki með nokkrum hætti frábrugðinn öðrum sjóðstreymisvandamálum sem koma upp,“ segir Þórólfur. „Nú er það svo að höfuðverkefni þeirra sem reka fyrirtæki er að stjórna sjóðstreymi þannig að ekki komi til sjóðþurrðar. Sjóðstreymisvandinn sem tengist veiðigjaldinu er því tiltölulega léttvægur og kallar ekki einn sér á lagabreytingar.“