Hvalveiðar Hvals hf. árið 2018 voru, að mati dýraverndunarsamtakanna Jarðarvina, ólöglegar vegna þess að veiðileyfi fyrirtækisins var runnið út samkvæmt lögum. Lögmaður samtakanna segir margt í stjórnsýslu hvalveiða sem megi bæta.

Jarðarvinir, samtök hér á landi sem berjast gegn hvalveiðum, hafa með atbeina lögfræðinga reynt að komast til botns í stjórnsýslunni á bak við hvalveiðar Íslendinga. Fréttablaðið hefur upp á síðkastið flutt fréttir af því að gögn sem Hval hf. ber að skila til Fiskistofu hafi ekki borist þangað í fimm ár og að Fiskistofa hafi engin þvingunarúrræði til að fá gögnin afhent.

„Samkvæmt okkar skilningi þá liggur það beinast við að veiðar Hvals hf. á stórhvelum hafi verið ólöglegar.“

Það sem Jarðarvinir benda helst á er að samkvæmt fyrstu grein laga um hvalveiðar er það skilyrði leyfis til veiða að fyrirtæki uppfylli skilyrði til að mega stunda fiskveiðar. Í lögum um stjórn fiskveiða er gerð grein fyrir því að veiðileyfi í atvinnuskyni falli niður hafi fiskiskipi ekki verið haldið til veiða í tólf mánuði.

„Samkvæmt okkar skilningi þá liggur það beinast við að veiðar Hvals hf. á stórhvelum hafi verið ólöglegar eftir að fyrirtækið lagði niður veiðar á löngum tímum síðastliðið veiðitímabil,“ segir Ragnar Aðalsteinsson, lögfræðingur Jarðarvina. „Því hefði verið eðlilegast að eftirlitsaðilar hefðu stöðvað veiðar á meðan fyrirtækið endurnýjaði veiðileyfi sín. Vitað er að veiðileyfin voru ekki endurnýjuð og því voru veiðarnar að okkar mati ólöglegar og án leyfis.“

Gustað hefur um fyrirtækið og hvalveiðar þess síðustu misseri. Vitað er að í það minnsta eitt dýr sem Hvalur hf. drap á síðustu vertíð var blendingur langreyðar og steypireyðar. Dýraverndunarsamtök hafa bent á að Hvalur hf. hafi ekki haft leyfi til að veiða steypireyði og því sé líklegt að þar hafi fyrirtækið brotið lög.

Stefnt er að því að veiðileyfi til ársins 2023 verði gefin út af hinu opinbera á næstu vikum. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er ekki loku fyrir það skotið að engin stórhveli verði veidd hér við land þar sem nægar birgðir eru til af langreyðarkjöti.