Samtökin 78 hafa kært Helga Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknara, til lögreglu. Fréttablaðið hefur kæruna undir höndum, en í gær greindi blaðið frá ákvörðun samtakanna að kæra ummæli hans í garð hinsegin fólks.

Helgi Magnús birti færslu fyrir helgi þar sem hann sagði hælis­leit­endur „auð­vitað“ ljúga um kyn­hneigð sína og spurði hvort „ein­hver skortur [væri] á hommum á Ís­landi.“

Í kæru samtakanna segir að í umræddum ummælum fyrirfinnist rógburður og séu þau smánun í garð hinsegin fólks.

Þá telja Samtökin 78 ummælin vera brot á 233. grein almennra hegningarlaga, en þar segir að hver sá sem opinberlega smánar eða ber rógburð að manni eða hópi manni skuli sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.

„Þetta eru ekki bara ósmekkleg ummæli, heldur eru þetta mjög alvarleg ummæli og þau geta haft miklar afleiðingar í för með sér,“ segir Daníel. E. Arnarsson, framkvæmdastjóri samtakanna, sem greindi frá því í gær að einróma samþykki hafi legið fyrir hjá stjórninni um að leggja fram kæru.

Kæra Samtakanna 78.
Fréttablaðið/Skjáskot