„Þetta er misráðin útfærsla og það sem mér finnst alvarlegast er að við erum með afar skýr grunnskólalög hvað þetta varðar. Þessi mikli niðurskurður á vali, sem er beinlínis fellt út í fyrstu sjö árgöngum grunnskólans og minnkað um nærri helming á unglingastiginu, er í beinni andstöðu við lögin sem kveða skýrt á um að nemendur eigi að hafa val á öllum stigum grunnskólans,“ segir Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs, um tillögu Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, um breytingar á viðmiðunarstundaskrá grunnskóla.

Er tilefni breytinganna viðvarandi slakur árangur íslenskra nemenda í íslensku og náttúrufræði í PISA-rannsókninni. Vægi íslensku og náttúrufræði er aukið á sama tíma og vægi valgreina er minnkað, fer það vægi úr um tíu prósentum niður í tæp fjögur prósent í yngstu bekkjum grunnskóla. Stefnt er að því að breytingarnar taki gildi frá og með skólaárinu 2021 til 2022.

Skóla- og frístundaráð hefur sent inn umsögn vegna tillögunnar, hún bætist við þá heilmiklu gagnrýni sem tillagan hefur þegar fengið í samráðsgátt stjórnvalda.

„Þetta er mikilvægt í tengslum við áherslur menntastefnu um persónumiðað nám við hæfi hvers og eins, við í borginni höfum lagt á það mikla áherslu að vinna með áhugasvið og nýta styrkleika nemenda, sem á sér einmitt oft stað í valgreinum þar sem þeir hafa meiri áhrif á hvað þeir læra,“ segir Skúli.

Valfög eru mismunandi eftir skólum, hafa þeir talsvert forræði yfir því hvað er í boði fyrir nemendur.

„Við styðjum viðleitni ráðherrans til að grípa til aðgerða á þessu sviði, en það þarf að kafa dýpra en horfa á klukkutímana. Það eru slæm fordæmi, bæði í Evrópu og ekki síst í Bandaríkjunum, þar sem stjórnvöld hafa einmitt brugðist við slökum árangri í PISA-könnunum með því að gera meira af því sem ekki virkar. Þeir hafa fjölgað tímum í stærðfræði án þess að skoða hvernig tíminn er notaður, hverjar áherslurnar eru, hvort námsefnið sé spennandi. Við þurfum að skoða kennsluhætti, námsefni, inntak kennaranáms og tengingu við ný hæfniviðmið í náttúrugreinum. Þá þarf að skoða sérstaklega hvernig megi gera náttúrugreinar meira aðlaðandi í kennaranáminu ef við ætlum að ná tilætluðum árangri.“

Varðandi náttúrufræðina segir Skúli að það vanti líka tilfinnanlega kennara sem hafa fagþekkingu og kennslureynslu í greininni, það sé forsenda til að ná árangri á því sviði. „Við gerðum nýlega könnun í borginni og þá kom í ljós að meirihluti náttúrufræðikennara á unglingastiginu hafði hvorki fagþekkingu né kennslureynslu á þessu fagsviði. Ástæðan er að kennaranemar hafa ekki valið þessar greinar á undanförnum árum og það hefur ekki verið brugðist við því með sérstökum aðgerðum.“

Skúli gagnrýnir einnig skort á samráði við bæði kennara, skólastjórnendur, foreldra, nemendur og menntayfirvöld sveitarfélaga í þessu máli. „Svona breytingar verða að byggja á samráði. Við megum ekki grafa undan því sem er gott í kerfinu. Við erum tilbúin í gott samstarf við ráðherra um betri útfærslur á þessu góða markmiði, að styrkja stöðu íslenskra nemenda í íslensku og náttúrugreinum.“