Ný greining hefur leitt í ljós að olían á fuglunum, sem fundist hafa dauðir við strendur Suðurlands og Vestmannaeyja síðastliðnar vikur, er öll sömu gerðar: svartolía. Greint er frá þessu í nýjasta tölublaði Fiskifrétta.

Þyrla Landhelgisgæslunnar fór með fulltrúa Umhverfisstofnunar í eftirlitsflug síðastliðinn mars í leit að uppruna mengunarinnar. Flogið var umhverfis allar eyjar Vestmannaeyja og að Reynisfjöru en ekkert fannst í þeim leiðangri.

Umhverfistofnun vinnur áfram í því að leita að uppruna mengunarinnar, meðal annars með aðstoð Landhelgisgæslu Íslands og EMSA, Siglingaöryggisstofnun Evrópu, og telur uppsprettu svartolíunnar vera skipsflak á hafsbotni.

Olíublautir fuglar við strendur Suðurlands og í Vestmannaeyjum.

Rannsókn Umhverfisstofnunar staðfesta að um sé að ræða svartolíu sem virðist koma frá sömu uppsprettunni. Þá er mikil ráðgáta hvaðan svartolían kemur þar sem henni hefur verið úthýst úr skipum hérlendis.

Stór skemmtiferðaskip og millilandaskip nota þó enn svartolíu. Þar sem fulltrúar Umhverfisstofunar fundu enga olíurák á yfirborði sjávar í eftirlitsflugi sínu þykir líklegt að uppsprettan sé skipsflak á hafsbotni að tærast upp.

Umhverfisstofnun kannar nú uppruna lekans og skoðar hafstrauma undan suðurströndinni í samvinnu við haffræðing.

Lundi sem kom upp úr Vestmanneyjahöfn. Ekki er vitað hvort hann hafi verið þakinn olíu eða sóti úr úthreinsunarbúnaði.
Fréttablaðið/Karen Lynn Velas

Þá er ekki talið að umræddur leki tengist olíublautum fuglum í Vestmannaeyjum. Sigurrós Friðriksdóttir teymisstjóri hjá Umhverfisstofnun segir ekkert benda til þess að mengunin þar tengist olíublautu fuglunum þar sem ekki sé um svartolíu að ræða.

„Hún virðist vera að koma einhvers staðar annars staðar frá,“ segir Sigurrós í samtali við Fiskifréttir. Fréttablaðið greindi frá því í fyrra að um hundrað fuglar komi úr Vestmannaeyjahöfn ataðir, að því er virðist, svartolíu á hverju ári. Erpur Snær Hansen, forstöðumaður Náttúrustofu Suðurlands hefur sagt að vandamálið sé viðvarandi. Náttúrustofan hefur birt margar myndir af olíublautum fuglum.

Fuglarnir deyja kvalarfullum dauða. Pétur Steingrímsson, íbúði í Vestmannaeyjum og göngugarpur, sagði í samtali við Fréttablaðið í mars: „Þegar þeir eru olíublautir þá finna fuglarnir að þeir sökkva. Olían eyðileggur fituna, þeir blotna í gegn, missa flothæfnina og krókna úr kulda. Þetta er kvalafullur dauðdagi.“

Dauðir olíublautir fuglar hafa fundist í Reynisfjöru.
Mynd/TG