Teymi vísindamanna hvaðanæva að úr heiminum telja sig hafa fundið uppruna svartadauða, en það er 700 ára gömul ráðgáta. Svartidauði er mannskæðasti heimsfaraldur í sögunni og gekk yfir Evrópu, Asíu og Norður-Afríku um miðja fjórtándu öld. Vísindamennirnir rekja faraldurinn til norðurhluta Kirgistan.
Eitthvað á bilinu 75 til 200 milljón manns létu lífið þegar faraldurinn reið yfir. Hann breiddist líklegast út með viðskiptaleiðum en þrátt fyrir miklar tilraunir til að finna uppruna faraldursins hefur verið skortur á traustum sönnunargögnum svo ekki hefur verið hægt að segja nákvæman uppruna.
„Við höfum í grundvallaratriðum funduð upprunann,“ segir Johannes Krause í samtali við The Guardian en hann starfar sem mannfræðingur við Max Planck stofnunina í Þýskalandi. „Við höfum ekki einungis fundið forföður svarta dauða, heldur höfum við einnig fundið forföður meirihluti plágustofna sem eru í umferð í heiminum í dag,“ bætti hann við.
Philip Slacin, sagnfræðingur við háskólann í Stirling í Bretlandi var fyrstur til þess að uppgötva vísbendingar um skyndilega aukningu dauðsfalla seint á þriðja áratug síðustu aldar í tveimur kirkjugörðum í norður Kirgistan.
Af þeim 467 legsteinum sem voru frá tímabilinu 1248 til 1345 voru 118 dagsettir árið 1338 eða 1339 og höfðu áletranirnar „mawtānā“ sem þýðir „pest“ á fornsýrlensku tungumáli.
Erfðaefni voru dregin úr tönnum sjö líkanna sem lágu í kirkjugörðunum í Kirgistan og komust Krause og félagar að því að þrjú líkanna báru veiruna sem veldur svartadauða.
Frekari greining á veirunni leiddi í ljós að hún var beinn forfaðir stofnsins sem olli svartadauða í Evrópu og var þá líklegast dánarorsök meira en helmings íbúa álfunnar.