Teymi vísinda­manna hvaða­næva að úr heiminum telja sig hafa fundið upp­runa svarta­dauða, en það er 700 ára gömul ráð­gáta. Svarti­dauði er mann­skæðasti heims­far­aldur í sögunni og gekk yfir Evrópu, Asíu og Norður-Afríku um miðja fjór­tándu öld. Vísinda­mennirnir rekja far­aldurinn til norður­hluta Kirgistan.

Eitt­hvað á bilinu 75 til 200 milljón manns létu lífið þegar far­aldurinn reið yfir. Hann breiddist lík­legast út með við­skipta­leiðum en þrátt fyrir miklar til­raunir til að finna upp­runa far­aldursins hefur verið skortur á traustum sönnunar­gögnum svo ekki hefur verið hægt að segja ná­kvæman upp­runa.

„Við höfum í grund­vallar­at­riðum funduð upp­runann,“ segir Johannes Krause í sam­tali við The Guar­dian en hann starfar sem mann­fræðingur við Max Planck stofnunina í Þýska­landi. „Við höfum ekki einungis fundið for­föður svarta dauða, heldur höfum við einnig fundið for­föður meiri­hluti plágu­stofna sem eru í um­ferð í heiminum í dag,“ bætti hann við.

Philip Sla­cin, sagn­fræðingur við há­skólann í Stir­ling í Bret­landi var fyrstur til þess að upp­götva vís­bendingar um skyndi­lega aukningu dauðs­falla seint á þriðja ára­tug síðustu aldar í tveimur kirkju­görðum í norður Kirgistan.

Af þeim 467 leg­steinum sem voru frá tíma­bilinu 1248 til 1345 voru 118 dag­settir árið 1338 eða 1339 og höfðu á­letranirnar „mawtānā“ sem þýðir „pest“ á forn­sýr­lensku tungu­máli.

Erfða­efni voru dregin úr tönnum sjö líkanna sem lágu í kirkju­görðunum í Kirgistan og komust Krause og fé­lagar að því að þrjú líkanna báru veiruna sem veldur svarta­dauða.

Frekari greining á veirunni leiddi í ljós að hún var beinn for­faðir stofnsins sem olli svarta­dauða í Evrópu og var þá lík­legast dánar­or­sök meira en helmings íbúa álfunnar.