Lög­reglan í Troup-sýslu í Georgíu í Banda­ríkjunum telja sig nú vita hvað varð til þess að hinn 22 ára gamli Kyle Clinks­ca­les hvarf spor­laust árið í janúar 1976.

Kyle var á leið heim úr vinnu í LaGrange að kvöldi 27. janúar en skilaði sér ekki á á­fanga­stað sem var heima­vist Auburn-há­skólans þar sem hann stundaði nám. Mikil leit var gerð í kjöl­farið en hvorki Kyle né bif­reið hans fundust.

Á dögunum fannst gömul og illa farin bif­reið utan vegar í ó­byggðum Ala­bama og leiddi at­hugun í ljós að þar var komin bif­reið Ky­les. Í bif­reiðinni voru líkams­leifar og bendir flest til þess að þær séu af Kyle þó DNA-rann­sókn þurfi til að skera úr um það.

Í um­fjöllun banda­rískra fjöl­miðla kemur fram að margt bendi til þess að Kyle hafi misst stjórn á bif­reið sinni með þeim af­leiðingum að hún endaði utan vegar og endaði á skógi vöxnu svæði nokkuð fyrir neðan veg. James Woodruff, lög­reglu­stjóri í Troup-sýslu, segir að málið verði rann­sakað á næstu dögum og vikum og reynt verði að varpa ljósi á það hvað dró Kyle til dauða.