Talið er að tekist hafi að finna orsök MS-sjúkdómsins, öðru nafni heila- og mænusiggi. Niðurstöður rannsóknar vísindamanna við Harvard-háskóla sem nýlega voru birtar í tímaritinu Science benda til þess að sjúkdómurinn, sem veldur skemmdum á taugafrumum í heila og mænu, orsakist af veirusmiti.

Nánar tiltekið er talið að Epstein-Barr-veiran (EBV) svokallaða sé smitvaldurinn. Lengi hefur reynst erfitt að finna lækningu við MS-sjúkdómi vegna þess hve lítið hefur verið skilið um eðli hans. Tilgáta um að MS væri veirusjúkdómur og að tengsl væru milli sjúkdómsins og EBV hefur verið til um árabil en niðurstöður nýju rannsóknarinnar virðist staðfesta þetta í fyrsta sinn. Áður hefur reynst erfitt að sannreyna hana vegna þess hve algeng Epstein-Barr-veiran er, en hún er ein útbreiddasta veiran í mannfólki.

Rannsóknin var unnin með því að fara í gegnum gagnagrunn læknisupplýsinga um bandaríska hermenn sem spannar tvo áratugi. EBV er að finna í flestum heilbrigðum fullvaxta mönnum, en hlutfall hennar hjá þeim sem höfðu greinst með heila- og mænusigg var 99,5 %. Alberto Ascherio, einn af stjórnendum rannsóknarinnar, segir að þetta taki nánast út allan vafa um tengsl milli veirunnar og sjúkdómsins. „Það var sláandi hve svarthvítar niðurstöðurnar voru,“ sagði hann.