Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu telur sig hafa fundið morðvopnið í Rauðagerðismálinu. Mbl.is greindi fyrst frá og Margeir Sveinsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar staðfestir í samtali við Fréttablaðið.

Armando Beqirai, karlmaður á fertugsaldri, var myrtur fyrir utan heimili sitt í Rauðagerði aðfaranótt Valentínusardags 14. febrúar síðastliðinn. Hann var skotinn níu sinnum í höfuð og bol með skambyssu með hljóðdeyfi. Lögreglan hefur haft umrædda skammbyssu í vörslu sinni í nokkurn tíma og nú hafa bráðabirgðaniðurstöður sérfræðinga leitt í ljós að það sé líklegast morðvopnið.

„Skotvopnið kom í hendur okkar fyrir allnokkru síðan. Þó svo við töldum okkur alltaf verið með morðvopnið í höndum þá þurftum við að fá staðfestingu á því,“ segir Margeir.

Menn ætluðu að taka málin í sínar eigin hendur

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók í gær fjóra einstaklinga í tengslum við málið og framkvæmdi húsleit á sex stöðum í umdæminu og utan þess í gærmorgun. Margeir segir handtökurnar hafa verið vegna hótana og til að koma í veg fyrir einhverja atburðarás, sem lögreglan getur ekki farið nánar út í.

„Við höfum haft upplýsingar um að það hafi farið af stað einhverjar hótanir og menn hafi ætlað að taka málin í sínar hendur,“ segir Margeir og bætir við að fylgst sé með tilteknum hópum í undirheimunum sem taldir eru viðriðnir málið eða koma við sögu þess með einhverjum hætti.

„Við fylgdumst vel með þeirri atburðarás og gerðum viðeigandi ráðstafanir hjá okkur með auknu eftirliti og fleira. Við teljum að það sé ekki lengur hætta en málið er bara enn í rannsókn.“

Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að sakborningar sem sætt hafa gæsluvarðhaldi vegna málsins, og eftir atvikum fjölskyldur þeirra, hafi verið í felum vegna slíkra hótana eftir að gæsluvarðhaldi lauk og þeir úrskurðaðir í farbann.

Þrír sitja nú í gæsluvarðhaldi, tveir karlmenn og ein kona. Einn þeirra situr nú í fjögurra vikna gæsluvarðhaldi, grunaður er um að hafa skotið Armando til bana. Sex eru í farbanni vegna rannsóknarinnar og tólf hafa réttarstöðu sakbornings.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari