Aðalmeðferð í máli tveggja kvenna sem ákærðar eru fyrir að mótmæla brottvísun nígeríska flóttamannsins Eze Okafor í maí 2016. Tvö og hálft ár liðu frá atvikinu og þar til kæra var gefin út. Ragnheiður Freyja Kristínardóttir og Jórunn Eddu Helgadóttir neituðu báðar sök í héraðsdómi í dag og segja mótmælin hafi verið neyðarrúrræði. Sögðust þær hafa talið vin sinn vera í bráðri hættu, væri honum vísað úr landi.

Við aðalmeðferð í dag munu meðal annars flugfreyjur, flugmenn og lögreglumenn, gefa skýrslur. Þær Jórunn og Ragnheiður gáfu báðar skýrslu í morgun. Stór hópur var samankomin í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun til þess að sitja aðalmeðferðina og fengu færri sæti en vildu.

Sjá einnig: Kærðar fyrir mót­mæli í flug­vél: „Þetta var neyðar­úr­ræði“

Jórunn Edda Helgadóttir gaf fyrst skýrslu. Hún neitaði því að hafa brotið lög og sagði að hún hafi talið sig vera að fylgja lögum um að tryggja vernd mannsins og koma í veg fyrir frekara ofbeldi gegn honum. 

„Ég taldi hann vera í raunverulegri lífshættu ef hann yrði sendur með þessu loftfari, “sagði Jórunn Edda aðspurð að tildrögum þess sem átti sér stað umræddan dag í maí 2016. 

„Ég stend upp og ávarpa farþega og bið þá um að standa upp í þeirri von að hann yrði ekki sendur á brott með vélinni,“ sagði Jórunn. „Ég taldi þessa brottvísun vera ólöglega þó það hafi aldrei verið reynt fyrir dómi. Mjög fljótlega eftir að ég byrja að tala byrja flugfreyjur að toga í mig og reyna að ná mér út á ganginn.“

Vonaðist til að skilaboðin kæmust til flugstjóra

Að því loknu lýsti Jórunn því hvernig hún var dregin út og hélt á meðan áfram að ávarpa farþega vélarinnar.

Jórunn var að því loknu spurð út í einblöðung sem var dreift fyrir flug. Á honum stóð að fólk ætti ekki að spennta beltin í mótmælaskyni. Jórunn sagði að allt hefði gerst mjög hratt þennan dag og lýsti aðdraganda þess að þær hafi endað í vélinni að mótmæla brottvísuninni. Sagðist hún ekki hafa haft vitneskju mótmæli sem áttu sér stað í flugstöðinni fyrr um morguninn.

„Það var búið að reyna allt til að stoppa þessa ólöglegu brottvísun. Ég kaupi mér miða en ég man ekki einu sinni hvort ég var búin að ákveða hvað ég ætlaði að gera þegar ég kæmi um borð. Ég var helst að vonast að skilaboðin kæmust til flugstjóra,“ sagði Jórunn. „Ég man ekki alveg aðdragandann þetta gerist allt mjög hratt. Ég er raunverulega áhyggjufull um líf vinar míns. Það er mikið sem á sér stað á þessum 16 klukkustundum, þar til við förum um borð í vélina, eru mótmæli og allskonar í gangi,“ sagði Jórunn fyrir dómi í dag en daginn áður hafði brottvísun og handtöku Eze verið mótmælt við lögreglustöðina á Hverfisgötu.

Ákæruvaldið spurði Jórunni meðal annars hvað þær Ragnheiður hafi rætt á leið sinni út á völl, en kvaðst hún ekki muna það enda tæp þrjú ár liðin frá atvikinu.

Sagði hún að megin tilgangur aðgerðarinnar hafi verið að koma í veg fyrir frekara ofbeldi gegn Eze og stuðla að öryggi hans. 

Stressandi aðstæður um borð – vissi ekki af lögreglunni

Hún segir að aðstæðurnar hafi verið stressandi, þegar hún hafi svo verið komin um borð. „Þegar flugfreyjur eru að toga í mig og ýta mér og þegar ég er hrædd um líf vinar míns, ég veit ekki hvað er ekki stressandi við þetta,“ sagði Jórunn.

Hún sagði að hún hefði ekki gert ráð fyrir því að Eze hefði verið í vélinni í lögreglufylgd, vegna þess hve rólegur hann er að eðlisfari og bætti við að hann væri friðarsinni. Dómari greip þá inn í og spurði Jórunni hvort hún hefði séð hann í vélinni og hún tjáði honum að hún hafi séð til hans eftir að hún fór að tala við farþega vélarinnar. Jórunn lýsti því fyrir dómi hvernig aðstæður voru um borð, eftir að þær stóðu upp og ávörpuðu farþeganna. Hún segir að flugfreyjurnar hafi stuttu eftir það hafið að toga í hana og ýta henni.

„Ég man ekki eftir að hafa verið ávörpuð“, sagði Jórunn.

Hún segir að hún hafi verið að reyna að koma ákveðnum skilaboðum áleiðis og hafi passað sig að hafa hendur með síðum. Hún sé síðan felld, og leggi þá hendur fram fyrir sig, svo hún falli ekki á andlitið.

„Ég vonaðist til þess að fólk í vélinni myndi sína samstöðu eða að skilaboðin kæmust til flugstjórans sem myndi i kjölfarið neita að fara,“ sagði Jórunn.

Hún segir að eftir að lögreglan hafi verið kölluð til hafi hún orðið hrædd.

„Þegar lögreglan kemur er ég stödd við útganginn er búið að toga mér ýta mér og hrinda mér og vildi ekki fara úr vélinni nema Eze væri með. Ég hafði krækt handlegg undir járn við sæti og þegar að lögreglan kemur þá losa þeir mig og bera mig út úr vélinni. En er síðan sett á magann á pallinn í járn, bakið og hendurnar á mér togað aftur og ég æpi af kvölum yfir því,“ segir Jórunn.

Hún segir að því loknu hafi hún setið róleg á pallinum við vélina. Þá hafi lögreglumaður haldið áfram að pína hana. Bæði á pallinum og bak við lögreglubílinn sem hún var síðar sett upp í og flutti hana á lögreglustöðina.

Að því loknu var Jórunn spurð hvort hún telji sig hafa brotið lög.

„Nei, tel mig ekki hafa brotið nein lög,“ sagði Jórunn.

Geturðu útskýrt það? 

„Í fyrsta lagi tel ég mig hafa verið að fylgja lögum um að standa vörð um líf samferðarfólksins og láta það ekki fram hjá sér fara þegar maður telur aðra vera í lífshættu og ég tel þau lög mikilvægari en mörg önnur. Ég beitti engan ofbeldi,“ sagði Jórunn.

Myndbandið af atvikinu var síðan sýnt og segir Jórunn að bæði þar, og í öðrum myndskeiðum sem til eru af atvikinu, megi sjá að togað var í hana og að hún hafi ekki beitt neinn neinu ofbeldi.

Vildu vekja athygli á máli mannsins

Ragnheiður Freyja gaf síðan skýrslu. Áður en skýrslutaka hófst bað Ragnheiður um að fá orðið og benti á að það hefði tekið tvö og hálft ár fyrir ákæruvaldi að gefa út kæru og þeim hafi brugðið að fá hana í hendur svo löngu síðar. 

„Ég átti kannski von á kæru fyrstu tvö árin, svo tók svolítinn tíma að melta alvarleika þess sem borið var á okkur. Mig langar að árétta að allar aðgerðir okkar Jórunnar voru friðsamlegar. Það er líka skýrt í okkar huga að við erum þarna að standa vörð um vin okkar og vildum vekja athygli á máli hans,“ sagði Ragnheiður við aðalmeðferð í dag.

Í kjölfarið lýsti hún umræddum degi og handtökunni.

„Landgangurinn er opin þegar Jórunn stendur upp og vekur máls á máli seinna. Mjög stuttu seinna er búið að taka Jórunni niður og ég byrja að tala aftur. Afskaplega stuttu seinna koma lögreglumenn, grípa mig báðu megin við hendur og rykkja höndum á bakvið og rykkja höndunum á mér, þrengja svo fast að það blæddi úr höndunum á mér,“ sagði Ragnheiður og kvaðst ekki muna hve margir lögreglumennirnir hefðu verið.

Ragnheiður tók undir það sem Jórunn hafði áður sagt um að þær hafi keypt sér miða til að sýna Okafor samstöðu og til að vekja athygli á stöðu hans.

„Bæði vegna þess sem beið honum í hans heimalandi og vegna málsmeðferðarinnar á Íslandi,“ sagði Ragnheiður.

Hún sagði að þetta hafi verið algerlega seinasta úrræði, að fara um borð í vélina, og reyna þannig að stöðva brottvísun mannsins.„Ég veit ekki hvort ég hafi bundið einhverjar vonir við loka niðurstöðuna en þetta snerist meira um að fara og láta fólk vita og vona að það yrði einhver jákvæð loka niðurstaða,“ sagði Ragnheiður.

Hún sagði að hún hafi tekið eftir því að áhöfn vélarinnar hafi verið orðin stressuð vegna seinkunar vélarinnar og að þau hafi viljað ljúka því að ferma vélina.

„Ég gerði þeim bara ljóst að það væri maður um borð í vélinni sem væri í þessari aðstöðu,“ sagði Ragnheiður.

Hún sagði einnig að hún hafi ekki gert sér grein fyrir því að Okafor væri í lögreglufylgd í vélinni.

„..en vissi ekki að hann væri í þessari lögreglufylgd. Ég vissi að fólk færi í lögreglufylgd upp á völl en ég vissi ekki hvað færi í gegn. Ég vissi að hann yrði líklega um borð í þessari vél,“ sagði Ragnheiður.

Hún segir að hún hafi talið brottvísun mannsins ólögmæta og spurð hvort hún hafi talið sig vera að brjóta lög, sagði Ragnheiður:

Að standa upp og tala við farþega þegar flugvélin er enn í stæði? Nei.“ 

Hún segir að henni hafi komið það á óvart að lögregla hafi verið kölluð til og hvernig þeir mátu ástandið. Hún segir að allt hafi gerst hratt eftir það og að þeim hafi ekki verið gefin nein fyrirmæli, einfaldlega gripnar og teknar út.