Lögmennirnir Gestur Jónsson og Ragnar Halldór Hall telja að vegna þrískiptingar ríkisvaldsins hafi það verið óviðeigandi að hæstaréttardómarinn Ása Ólafsdóttir hafi komið að frumvarpi um breytingu á lögum um meðferð sakamála og farið gegn þrískiptingu ríkisvaldsins með þeim hætti.

Forsaga málsins er sú að Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra lagði fram frumvarp þann 14. nóvember um breytingu á lögum um meðferð sakamála, í kjölfarið á því að nokkrum af hinum svokölluðu hrunsmálum hafi verið vísað frá vegna ólíkrar túlkunar Hæstaréttar og endurupptökudóms á lögum.

Nýlega vísaði Hæstiréttur af tæknilegum ástæðum frá tveimur málum sem endurupptökudómur hafði vísað til hans. Í úrskurði endurupptökudóms var vísað til þess að í lögum um endurupptöku mála segir að heimilt sé að vísa máli sem dæmt hefur verið í Hæstarétti til meðferðar og dómsuppsögu „að nýju“ í Landsrétti. Þannig hafi endurupptökudómur túlkað ákvæðið á þann hátt að það feli aðeins í sér að mál sem hafi sætt meðferð og dómsuppsögu í Landsrétti geti verið endurupptekin þar. Þarna myndaðist ákveðin pattstaða á milli tveggja jafnsettra dómstóla.

Gestur Jónsson, hæstaréttar­lögmaður.

Í frumvarpi dómsmálaráðherra var lagt til að ef endurupptökudómur telur að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti fyrir 1. janúar 2018 og uppfyllir skilyrði til endurupptöku, er dóminum heimilt að vísa málinu til meðferðar og dómsuppsögu í Landsrétti.

Í gær barst umsögn um frumvarpið frá Sigríði J. Friðjónsdóttur ríkissaksóknara þar sem kemur fram að hún sé samþykk þeim breytingum sem komi fram í frumvarpinu og að hún taki að öllu leyti undir þær röksemdir fyrir lagabreytingum sem komu fram í greinargerð frumvarpsins. Þá telur ríkissaksóknari brýnt að frumvarpið fái skjótan framgang á Alþingi.

Í umsögn lögmannanna Gests Jónssonar og Ragnars Halldórs Hall segja þeir að sérstök ástæða sé til þess að vara við því að málið fái einhvers konar flýtimeðferð hjá Alþingi, þar sem það varðar grundvallarmannréttindi og þarfnist gaumgæfilegrar athugunar nefndarinnar.

Þá kasta Gestur og Ragnar því fram að þeir hafi heimildir fyrir því að í kjölfar uppkvaðningar úrskurðar endurupptökudóms í máli Ívars Guðjónssonar hafi einn af dómurum Hæstaréttar haft samband við stjórnendur í dómsmálaráðuneytinu og óskað efir fundi með hraði. Taldi dómarinn, Ása Ólafsdóttir, að nauðsynlegt væri að bregðast með hraði við þeirri „togstreitu“ sem skapast hefði milli Hæstaréttar og endurupptökudóms.

Ása Ólafsdóttir, hæstaréttardómari og formaður réttarfarsnefndar.

„Vegna þrískiptingar ríkisvaldsins orkar það mjög tvímælis að dómarar Hæstaréttar skuli telja það viðeigandi að þeir segi stjórnvöldum og löggjafarsamkomunni fyrir verkum á þann hátt sem birtist í þessu lagafrumvarpi,“ segja lögmennirnir og bæta við að það sé hlutverk dómstóla að túlka lögin, ekki setja þau.

Þá benda þeir einnig á að Ása, sem er formaður réttarfarsnefndar, hafi haft frumkvæði að frumvarpinu og sé væntanlega höfundur meginefnis þess.

Ef nefndarmenn í allsherjar- og menntamálanefnd sjái ástæðu til þess að bæta við sérstaka lagaákvæðinu sem kemur fram í frumvarpinu, þá leggja Gestur og Ragnar til að endurupptökudómur geti vísað málum til Landsréttar „ef þess er óskað af hálfu endurupptökubeiðanda“.

Ragnar Halldór Hall, hæstaréttarlögmaður.