Þýskir sak­sóknarar í máli Madelein­e Mc­Cann segjast alveg vissir um að hinn grunaði, Christian Brückner, hafi numið Mc­Cann á brott í Portúgal árið 2007 og myrt hana. Enn er verið að safna gögnum málinu til stuðnings en sak­sóknarar vonast til að á­kæran verði til­búin snemma á næsta ári.

Sá grunaði bjó í hús­bíl ná­lægt svæðinu þaðan sem Mc­Cann hvarf árið 2007, stuttu fyrir fjögurra ára af­mæli hennar. Fjöl­margir hafa verið rann­sakaðir í tengslum við málið en sak­sóknarar í Þýska­landi segjast hand­vissir um að Brückner hafi framið glæpinn.

Madeleine McCann var aðeins þriggja ára þegar hún hvarf.
Fréttablaðið/AFP


„Það væri mögu­legt fyrir okkur að leggja fram á­kæru núna. Við erum með sönnunar­gögn fyrir því núna,“ segir þýski sak­sóknarinn Hans Christian Wolters í sam­tali við the Mirror. Hann segir það ekki bara snúast um að leggja fram á­kæru heldur að byggja undir á­kærunni með sterkum sönnunar­gögnum.

Brückner af­plánar nú sjö ára fangelsis­dóm í Þýska­landi fyrir nauðgun, sem þýðir að sak­sóknarar hafa góðan tíma til að byggja upp mál gegn honum. Wolters segir nokkrar spurningar enn ó­svaraðar og því ekki tíma­bært að leggja fram kæru þó svo það væri hægt. „En hann er í fangelsi þannig við erum ekki undir þessari pressu. Við höfum tíma,“ segir hann.

„Það er engin von um að hún sé á lífi"

Sak­sóknararnir segjast ekki hafa neinar af­gerandi sannanir um það að Mc­Cann sé látin, það sé ekkert lík fundið og engin líf­sýni, en að sönnunar­gögnin sem þeir hafi undir höndunum úti­loki allar aðrar niður­stöður.

„Ég get ekki sagt ykkur á hvaða grund­velli við á­ætlum að hún sé látin en við sjáum engan annan mögu­leika. Það er engin von um að hún sé á lífi,“ sagði Wolters við for­eldra Mc­Cann, Kate og Gerry Mc­Cann.

Þýski miðillinn Spi­egel greindi frá því að við leit lög­reglu í hús­næði Brückner árið 2016 hafi meðal annars fundist myndir sem sýndu börn í kyn­­ferðis­­legum til­­­gangi og stelpu­­föt en Brückner á sjálfur engin börn. Brückner virtist þó ekkert vera rann­sakaður frekar á þeim tíma.

Við sömu leit kom einnig í ljós að Brückner hafi í sam­­skiptum við vin í septem­ber árið 2013 og sagt að honum langi að „fanga eitt­hvað lítið og nota það í fleiri daga.“ Eftir að vinurinn sagði það vera hættu­­legt gaf Brückner það í skyn að hann hefði reynslu af því og sagði það vera lítið mál ef „sönnunar­­gögnunum er eytt.“