Gerðar eru ýmsar athugasemdir við frummatsskýrslu Arctic Sea Farm vegna áforma um átta þúsund tonna sjókvíaeldi á laxi eða silungi í Ísafjarðardjúpi, í umsögn Ísafjarðarbæjar til Skipulagsstofnunar.

„Umhverfisáhrifum eru gerð góð skil svo og mótvægisaðgerðum og vöktun,“ segir í umsögninni. Bærinn leggi áherslu á að áætlanir um rannsóknir og vöktun séu árlegar og fylgi viðeigandi stöðlum. „Það er grundvöllur að því að hægt sé að endurmeta, með rauntölum, burðarþol Ísafjarðardjúps til fiskeldis.“

Þá segir Ísafjarðarbær að ekki sé gerð grein fyrir aðgerðaáætlun ef upp komi neyðartilvik. Ekki sé talað um hvers konar aðstöðu Arctic Sea Farm sé með á Flateyri og ekki um hvers konar aðstöðu fyrirtækið fyrirhugi á lóð sem það hafi sótt um á Ísafirði.

„Ekki kemur fram í skýrslunni hvort vinnsla á afurðum verður á norðanverðum Vestfjörðum eða ekki. Ekki er ljóst hvernig skýrsluhöfundar komast að niðurstöðu um að samfélagið verði fyrir „neikvæðum áhrifum“ ef ekki komi til uppbyggingar á fiskeldi eða hvaða rannsóknir liggja þar að baki.“