Mótmæli fóru fram víða í Frakklandi í gær þar sem mikill fjöldi mótmælenda hélt á götur út. Átta stór stéttarfélög tóku þátt í mótmælunum þar sem almenningssamgöngur og skólastarfsemi var hindruð.
Mótmælin beinast gegn áformum Emmanuel Macron Frakklandsforseta um að hækka eftirlaunaaldurinn í Frakklandi úr 62 árum upp í 64.
Þótt verkalýðsfélögunum og lögreglu komi ekki saman um heildarfjölda mótmælenda virðast þau þó sammála um að hann sé hærri en þegar breytingunum var síðast mótmælt 19. janúar.
Skoðanakannanir sýna að mikill meirihluti Frakka er andvígur breytingunum, en Macron virðist ekki ætla að haggast. Sagði hann meðal annars á mánudag að umbæturnar væru „nauðsynlegar til að tryggja lífeyriskerfið“. Macron gerðu áður tilraun til að breyta kerfinu árið 2019 en hætti við þegar Covid skall á.
Þar sem Endurreisnarflokkur Macron hefur ekki meirihluta á franska þinginu mun forsetinn neyðast til að treysta á stuðning frá um sextíu þingmönnum Repúblikanaflokksins. Þar er ekki á vísan að róa því að þótt þeir séu margir hlynntir lífeyrisumbótum hafa sumir þingmannanna varað við því að þeir gætu greitt atkvæði gegn breytingunum.
Að sögn ríkisstjórnarinnar myndu breytingarnar á lífeyriskerfinu skila um 17,7 milljörðum evra til viðbótar í lífeyrisiðgjöld. Stéttarfélög hafa bent á að aðrar leiðir séu mögulegar til að afla tekna, svo sem að skattleggja hina ofurríku.
Eftirlaunaaldurinn var áður hækkaður árið 2010 þegar ríkisstjórn Nicolas Sarkozy, þáverandi Frakklandsforseta, lét hækka hann úr 60 árum upp í 62 ár.
Mörg af nágrannalöndum Frakklands hafa nú þegar hækkað eftirlaunaaldurinn sem er 67 ár á Ítalíu og í Þýskalandi, 66 ár í Bretlandi og 65 ár á Spáni.