Í dag barst foreldrum barna í Vallaskóla á Selfossi tölvupóstur þar sem fram kom að komið hefði til átaka á meðal nemenda á unglingastigi skólans. Fram kemur í póstinum, sem Fréttablaðið hefur undir höndum, að um tíuleytið í morgun hafi fjórir drengir á unglingastigi tekist á fyrir utan Engjavegsanddyrið á Sólvöllum.

Í skeytinu, sem kemur frá Guðbjarti Ólassyni skólastjóra, segir að starfsfólk skólans á svæðinu hafi komið fljótt á vettvang og brugðist fagmannlega við. Og þá kemur fram að enginn hafi hlotið verulegan áverka af í átökunum.

„Atvikið er litið alvarlegum augum og fór af stað viðbragð viðeigandi aðila, þ.e. lögreglu og barnaverndar. Að öðru leyti get ég ekki upplýst frekar um atburðarásina vegna rannsóknarhagsmuna.“ segir í tölvupóstinum.

Þá kemur fram að grunur sé um að myndskeið af atvikinu sé í dreifingu, og eru foreldrar sem telja börn sín hafa umrætt myndskeið undir höndum beiðnir um að leita til lögreglu vegna málsins.

„Það slær að okkur óhug þegar svona gerist en um leið er ég óskaplega feginn að ekki fór verr. Ég þakka starfsfólki sem af hugrekki beitti sér í aðstæðum og þeim sem róuðu nemendur og fylgdust með líðan þeirra í kjölfarið.“

Í bréfinu segir að starfsfólk skólans hafi verið beðið um að fylgjast vel með líðan nemenda og beina þeim sem líður illa til viðtals hjá náms- og starfsráðgjafa. Þá er biðlað til foreldra að fylgjast einnig vel með líðan barna sinna. Þá mun segist Guðbjartur ætla að ræða við nemendur unglingastigs í sal skólans á morgun.