Alríkislögregla Bandaríkjanna, FBI, mun kanna bakgrunn allra meðlima þjóðvarðliðsins sem eru væntanlegir til Washington, D.C., en um 25 þúsund hermenn hafa verið kallaðir til borgarinnar fyrir embættistöku Joes Biden næstkomandi miðvikudag.

Eftir óeirðirnar í borginni þann 6. janúar, þar sem stuðningsmenn Trumps réðust inn í þinghúsið, hefur mikil spenna verið í Bandaríkjunum og er gert ráð fyrir að frekari óeirðir muni brjótast út víða um Bandaríkin á næstu dögum. Þá er sérstaklega mikill viðbúnaður í Washington.

Að því er kemur fram í frétt AP fréttastofunnar óttast embættismenn varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna að von sé á annarri árás í Washington en talið er að slík árás geti mögulega komið innan frá og því hefur verið ákveðið að rannsaka alla hermennina sem koma til borgarinnar.

Ekkert óvanalegt komið í ljós

Fimm létust í árásinni þann 6. janúar, þar af einn lögreglumaður, en Alríkislögreglan hefur þegar haft uppi á nokkrum sem réðust inn í þinghúsið. Þeirra á meðal voru nokkrir hermenn en örfáir starfandi meðlimir þjóðvarðliðsins hafa verið handteknir í tengslum við árásina.

Ryan McCarthy, ráðherra hernaðarmála, greindi frá því í gær að yfirvöld væru meðvituð um að hætta gæti mögulega stafað af hermönnum og að yfirmenn væru hvattir til að fylgjast með undirmönnum sínum. Þó hafi ekki verið sýnt fram á slíkt enn sem komið er en verið er að rannsaka alla.

Það er ekki óvanalegt að hermenn þjóðvarðliðsins séu kallaðir til þegar nýr forseti tekur við embætti en þeir eru þó sérstaklega margir núna. Allir hermenn eru rannsakaðir af hernum reglulega vegna mögulegra tengsla við öfgahópa en rannsóknir Alríkislögreglunnar eru viðbót við slíkt.

Gert er ráð fyrir að búið verði að rannsaka alla fyrir miðvikudaginn.