Jón Kaldal, talsmaður Íslenska náttúruverndarsjóðsins, segir mælingar sýna að sjókvíaeldislax fái mikið af örplasti með fóðri sem blásið sé í kvíarnar um plaströr.

„Við blásturinn losna plastagnir sem berast með fóðrinu í kvíarnar, enda áhrifin líkt og af sandblæstri,“ segir Jón. „Við bárum saman þyngd nýrra og notaðra röra úr sjókvíaeldi hér við Ísland. Notað rör er um 100 grömmum léttara á hvern metra en nýtt rör.“

Farið er yfir málið í nýju myndbandi frá Íslenska náttúruverndarsjóðnum sem sjá má hér að neðan.

Mælingar í Noregi sýna, að sögn Jóns, sömu rýrnun á notuðum rörum. Á hverju eldissvæði séu að minnsta kosti tveir til fimm kílómetrar af plaströrum. Varlega áætlað segir Jón að frá kvíastæði með 3,5 kílómetra af rörum losni um 350 kíló af örplasti á ári, eingöngu vegna fóðurröranna.

Jón Kaldal, talsmaður Íslenska náttúruverndarsjóðsins.
Fréttablaðið/Ernir

„Er þá ekki talin með önnur gríðarleg plastnotkun í þessum iðnaði. Til dæmis eru netapokarnir í sjókvíunum úr plastefnum, en dæmigerður slíkur poki er 160 metrar að ummáli og 40 metra djúpur og á hverju eldissvæði geta verið tíu sjókvíar,“ segir Jón. Á Vestfjörðum séu nú níu sjókvíaeldissvæði. Frá þeim berist að minnsta kosti um 3.150 kíló af örplasti á ári.

„Örplast hefur afar skaðleg áhrif á sjávarlífverur. Rannsóknir sýna að það teppir meltingarfæri þeirra og veldur bólgum. Í mars 2022 greindu vísindamenn í fyrsta sinn örplast í mannsblóði,“ segir Jón Kaldal. Ekki sé boðlegt að plast berist í eldislaxinn.

Myndbandið frá Íslenska náttúruverndarsjóðnum er hér.