Byrjað er að skipa í starfshóp til að rannsaka tíðaraskanir í kjölfar bólusetningar, segir Alma Möller landlæknir í skriflegu svari við Fréttablaðið. ,,Ætla má að athugunin taki einhverjar vikur hið minnsta," segir hún.

Starfshópurinn verði líklega samsettur af þremur til fjórum óháðum sérfræðingum, meðal annars á sviði kvensjúkdóma-, fæðinga- og blóðstorkufræða.

Landlæknir og forstjóri Lyfjastofnunar ræddu málin fyrr í vikunni og sammæltust um mikilvægi þess að framkvæma rannsókn með því markmiði að geta veitt konum svör og ráðleggingar.

Alma segist hafa móttekið erindi frá Rebekku Ósk Sváfnis­dóttir fyrir hönd kvenna sem hafa upplifað tíðaröskun í kjölfar bólusetninga þar sem farið var fram á rannsókn í því máli.