Lundaveiði á Íslandi hefur minnkað um 90 prósent frá 1995, að því er fram kemur í tölum Náttúrufræðistofu Suðurlands, en stofnlægðin var hvað mest á árunum 2005 til 2017.

„Stofninn hefur þó heldur verið að hjarna við í Eyjum á allra síðustu árum,“ segir Erpur Snær Hansen líffræðingur sem þekkir gjörla til sveiflna á stærð stofnsins.

Rannsóknir hans og fleiri vísindamanna benda til þess að sveiflur í stofnstærðinni megi líklega rekja til kísilstyrks í sjónum og fylgni hans við þörungablóma í hafinu undan ströndum Íslands.

„Ef kísilstyrkurinn dvínar um allt að fjórðung seinkar þörungablómanum og þar með varpi lundans um ríflega tvær vikur – og það hefur sín áhrif,“ segir Erpur Snær. „Þetta er okkar tilgáta,“ segir hann enn fremur og telur að sömu breytur í sjónum hafi áhrif á afkomu humars og viðveru makríls hér við land.

Lundinn er talinn tegund í bráðri útrýmingarhættu á heimsvísu. Í Noregi, þar sem lundar hafa verið fleiri en á Íslandi um langt árabil, hefur stofninn minnkað til muna – og er nú minni en á Íslandi.

Hóflegar veiðar á lunda eru þó enn leyfðar á Íslandi, en hafa farið minnkandi, farið úr líklega 600 þúsund fuglum í upphafi aldar í 60 þúsund í ár. „Það þarf að gæta þess að veiðar verði áfram sjálfbærar,“ segir Erpur, því þótt stofninn telji enn nokkrar milljónir fugla geti sveiflur náttúrunnar haft veruleg áhrif á stofninn.

Erpur Snær Hansen líffræðingur.