Lögreglan á Austurlandi telur sig hafa fylgt eðlilegu verklagi þegar maður var skotinn í kviðinn í aðgerðum lögreglu á Austurlandi.
„Málavextir hafa verið rýndir innanhúss og er ekkert á þessu stigi sem bendir til að verklagi í málum sem þessum hafi ekki verið fylgt,“ segir í tilkynningu frá Kristjáni Ólafi Guðnasyni, yfirlögregluþjóni á Austurlandi.
Lögreglan hvetur fólk til að leita sér áfallahjálpar eftir atvikið, svo sem hjá félagsþjónustunni á Egilsstöðum eða Heilbrigðisstofnun Austurlands. Lögregluþjónar sem komu að aðgerðinni hafa sjálfir þegið sálræna aðstoð.
Málið er til rannsóknar hjá embætti héraðssaksóknara.
Lögreglan fékk tilkynningu seint á fimmtudagskvöldi 26. ágúst um skotmann inni á heimili í Dalseli á Egilsstöðum sem væri að hóta að beita vopni sínu.
Þegar lögregla kom á vettvang heyrðust skothvellir meðan viðkomandi var inni, en ekki var vitað á þeim tímapunkti hvort fleiri væru í húsinu. Eftir um klukkustund kom maðurinn út úr húsinu og skaut þá að lögreglu. Var hann í kjölfarið skotinn í kviðinn. Síðar kom í ljós að maðurinn hafi verið með öflugan loftriffill á sér.
Maðurinn var fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur og er á batavegi. „Þá er lögregla þakklát fyrir góðan bata þess er varð fyrir áverka í aðgerð hennar og biður þar fyrir góðar kveðjur,“ segir í tilkynningu frá lögreglu.