Neytendastofa hefur ákvarðað að Kristín Pétursdóttir, áhrifavaldur og leikkona, hafi brotið lög með umfjöllun um sjö fyrirtæki á Instagram. Í ákvörðun stofnunarinnarer henni ekki gert að sæta sektun en henni er bannað að birta auglýsingar án þess að það komi fram með skýrum hætti að um viðskiptaboð sé að ræða.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Neytendastofa kemst að svipaðri niðurstöðu, áhrifavaldar á borð við Sólrúnu Diego og Lína Birgitta auk rapparans Emmsjé Gauta, hafa fengið á sig úrskurði tengda dulinni markaðssetningu á samfélagsmiðlum.

Stofnuninni barst ábendingar um að á Instagram-síðu Kristínar væri að finna umfjallanir um vörur og þjónustu án þess að það væri merkt sem samstarf. Í svari Kristínar segir að hún skilgreini sig ekki sem áhrifavald, hún sé leikkona og noti Instagram til að koma sér á framfæri.

Kristín segir að hún eigi fjölskyldu og vini sem ættu fyrirtæki sem gæfu henni afslátt. Þá komi fyrir mannleg mistök í flýti og lofaði hún að standa sig betur í því að merkja efni sem viðskiptaboð.

Gjafir og afslættir frá vinum

Þá rekur Kristín hvernig hún fékk vörurnar, þar á meðal afslætti og gjafir frá Húrra Reykjavík og Gallerí 17, máltíðir frá Yuzu burger og Reykjavík Meat. Síðan hafi mæðgurnar í Blómahönnun hefðu komið henni tvisvar til þrisvar á óvart með blómvendi heim til hennar án þess að biðja um nokkuð í staðinn.

Í úrskurðinum segir að auglýsingar á samfélagmiðlum verði að vera skýrlega merktar sem slíkar. „Merkingin þarf að vera vel staðsett, hafa nægjanlega stórt letur og vera í skýrum lit.“ Segir í ákvörðuninni að Kristín hafi brotið ákvæði laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.