Bandaríkin og Japan tilkynntu í vikunni gríðarlega aukningu á hernaðarsamstarfi sínu. Stefnubreytingin felur meðal annars í sér auknar varnir gegn geimárásum og nýja herdeild landgönguliða sem mun hafa aukinn aðgang að upplýsingum, eftirlitsgetu og flugskeytum sem nota má gegn herskipum.

Anthony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, fundaði í gær með Yoshimasa Hayashi, utanríkisráðherra Japans, og sögðust þeir báðir vera sammála um að Kína væri stærsta geópólitíska ógn sem Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra standa frammi fyrir.

Bandaríkin segjast einnig styðja áætlanir japanskra yfirvalda um að verja meiri fjármunum til að styrkja varnarlið sitt, en Japanir vilja auka getu sína til að ráðast gegn bækistöðvum óvina, skyldu þeir telja árás á landið vera yfirvofandi.

Nýja landgönguliðadeildin verður starfrækt á Okinawa-eyju og mun verkefni deildarinnar vera að starfa sem viðbragðssveit sem gæti brugðist fljótt við skyndilegri árás á landið. Á Okinawa eru 25 þúsund bandarískair hermenn og rúmlega 70 prósent af öllum bandarískum herstöðvum í Japan. Eyjan er talin afar mikilvæg sökum nálægðar hennar við Taívan.