Nokkrir íbúar í Árbæ telja háværu hvellina sem hafa heyrst í hverfinu nokkra daga og nætur í röð vera úr loftbyssu.

Fréttablaðið greindi frá því fyrir helgi að dularfullir og háværir hvellir hafi heyrst um klukkan eitt aðfaranótt miðvikudags í Árbænum. Íbúar í götunni Hábæ sögðu óhljóðin hafa hljómað eins og byssuskot, og heyrðust þrír til fjórir hvellir með stuttu millibili.

Umræður hafa skapast á Facebook síðu fyrir íbúa Árbæjar þar sem fleiri segjast hafa heyrt hvellina nokkra daga í röð, bæði að nóttu og degi til. Hvellirnir hafa heyrst víða um allt hverfið; Norðlingaholti, Selás og í Rofabæ.

Er talið að unglingsstrákar hafi verið að verki en skothvellirnir hafa heyrst í kringum Árbæjarskóla.

Íbúi í Deildarás segist hafa séð hóp unglingsstráka leika sér með loftbyssu og hafi einn í hópnum skotið þrisvar í átt að bílum í hverfinu.

Líkt og íbúar í Hábæ segir hún skotið hafa hljómað eins og úr riffli.

„Ég hélt að þetta væru riffilskot, maðurinn minn er skotveiðimaður svo ég kannast við hljóðin. Ég sat inn í eldhúsi að vinna og hrökk upp við hvellina, og fór út í glugga og fylgdist með þeim. Drengurinn sem var með ,,byssuna“ skaut meðal annars í átt að bílum sem lagðir eru fyrir ofan fylkisvöllinn,“ segir einn íbúanna.

Lögreglan er engu nær en málið minnir á atvik í september í fyrra þegar minnst fjórir ungir menn voru færðir í handjárn fyrir utan Árbæjarskóla eftir að hafa skotið gúmmíkúlum út skotvopni á bíl og brotið þannig bílrúður.

Slíkt vopnahald er að sjálfsögðu ólöglegt. „Ef um er að ræða skotvopn þá verður það að sjálfsögðu rannsakað í þaula,“ sagði Valgarður Valgarðsson aðalvarðstjóri hjá lögreglustöð fjögur.