Lækkandi smittíðni meðal skólabarna á Spáni er að mati sérfræðinga vísbending um að hjarðónæmi gegn Covid-19 sé þar innan seilingar. Þetta kemur fram í spænska stórblaðinu El País.

Þótt mánuður sé liðinn af skóla­árinu segir El País að smittíðnin haldi áfram að vera lág, jafnvel meðal óbólusettra barna.

Óttast var að smitum kynni að fjölga þegar 5,2 milljónir barna undir tólf ára aldri myndu flykkjast í skólann. Þetta hafi ekki gerst á meðal þessa eina þjóðfélagshóps sem ekki sé bólusettur. Því séu sérfræðingar nú bjartsýnir á að þjóðin hafi náð þetta mikilli vernd með því að nærri 80 prósent þjóðarinnar séu fullbólsett að því megi líkja við hjarðónæmi.

Þrátt fyrir að ekki sé búist við því að sögn El País að veiran hverfi að fullu, telji sérfræðingar senn komið að því að nemendur eldri en sex ára þurfi ekki lengur að bera grímur.

„Við erum í bestu sviðsmynd sem við gátum búist við fyrir mánuði,“ hefur El País eftir Quique Bassat, sem er faraldursfræðingur við ISGlobal-stofnunina í Barcelona.

„Mjög hefur dregið úr samfélagssmitum og það ásamt sóttvarna­aðgerðum í skólum hefur reynst duga, jafnvel gegn afbrigði sem er eins smitandi og delta,“ útskýrir Bassat stöðuna fyrir El País.

Jesús Rodríguez Baño, yfirmaður smitsjúkdómadeilar Virgen de la Macarena spítalans í Sevilla, tekur í sama streng að sögn El País.

„Ef við ætlum að finna skýringu á því hvers vegna staðan á faraldrinum hefur batnað, einnig meðal þeirra sem eru óbólsettir, með delta-afbrigðið í umferð og okkur smám saman að snúa aftur til eðlilegs lífs, þá er eina trúlega skýringin sú að eitthvað á borð við hjarðónæmi sé þegar farið að virka,“ segir Jesús Rodríguez Baño.