Bandaríska kvikmyndatímaritið Variety telur Hildi Guðnadóttur líklega til þess að fá tilnefningu til Óskarsverðlauna. Hildur samdi skor fyrir tvær nýjar kvikmyndir, sem eru þær fyrstu síðan The Joker sem Hildur hlaut Óskarsverðlaun fyrir.

Annars vegar er það kvikmyndin Tár sem fjallar um ris og fall tónlistarstjórnanda að nafni Lydía Tár sem leikin er af Cate Blanchett. Hins vegar er það Women Talking sem fjallar um kynferðisofbeldi í kristnum sértrúarsöfnuði og skartar meðal annars Rooney Mara og Frances McDormand.

Variety segir tónlist Hildar í Tár vera lágstemmda og meira „til að finna en heyra“. Tónlistin í Women Talking sé aðgengilegasta tónlist Hildar og einkennist af kassagítar.