Borið hefur á óánægju með orðalag starfsauglýsingar um embætti nýs rektors meðal starfsmanna Listaháskólans. Stjórnarformaður LHÍ segir af og frá að auglýsingin standist ekki háskólalög.
Starfsmenn Listaháskóla Íslands eru uggandi vegna orðalags í starfsauglýsingu stofnunarinnar um embætti nýs rektors sem birt var í síðustu viku. Í hæfniskröfum sem tilteknar eru kemur meðal fram að umsækjendur þurfi að hafa víðtæka þekkingu á rannsóknum og starfi háskóla auk staðgóðrar þekkingar á listum og skapandi greinum.
Þar stendur enn fremur: „Reynsla á einhverju af fagsviðum Listaháskóla Íslands er kostur.“
Nokkrir kennarar LHÍ sem Fréttablaðið ræddi við en vilja ekki koma fram undir nafni hafa áhyggjur af því að þetta orðalag brjóti í bága við 15. grein laga um háskóla þar sem fjallað er um stjórnskipan háskóla hér á landi. Samkvæmt þeim lögum skulu rektorar uppfylla kröfur 1. mgr. 18. gr. „sem háskólakennari á einu eða fleiri viðurkenndum fræðasviðum viðkomandi háskóla“.
„[Þeir sem bera framangreind starfsheiti skulu hafa þekkingu og reynslu í samræmi við alþjóðleg viðmið fyrir viðkomandi starfsheiti á þeirra fræðasviði, staðfest með áliti dómnefndar eða með doktorsprófi frá viðurkenndum háskóla.] 1) Þeir skulu jafnframt hafa sýnt þann árangur í starfi að þeir njóti viðurkenningar á viðkomandi sérsviði,“ segir í lögunum.

Hafnar því að auglýsingin brjóti lög
Stjórn LHÍ samdi starfsauglýsinguna og ber ábyrgð á henni. Í stjórn LHÍ sitja fimm manns, þar af tveir fulltrúar mennta- og menningarmálaráðuneytisins (nú háskólaráðuneytið) þar á meðal stjórnarformaður, Magnús Ragnarsson. Magnús hafnar því alfarið að auglýsingin brjóti í bága við háskólalög.
„Við höfum umhverfi þar sem gilda lög um háskóla og að sjálfsögðu munum við fara eftir þeim. Við hins vegar teljum það vera kostur að umsækjandi sé með reynslu af þessum fagsviðum af því þeir sem koma til greina undir lögum um háskóla eru miklu víðtækari en bara fagsviðin okkar,“ segir Magnús.
Þetta er kannski sjónarmið sem er sérstaklega mikilvægt í Me Too umhverfi okkar í dag
Að sögn Magnúsar myndi hæfnisnefnd Listaháskólans aldrei taka annað til greina en að ráða einstakling sem stæðist þær kröfur sem teknar eru fram í háskólalögum.
„Hún er skipuð af fagmenntuðum einstaklingum og háskólarektorum. Hún er skipuð af fagfólki og er bara sama hæfnisnefnd og er við störf í dag í háskólum. Það er enginn úr stjórn í henni.“
Í starfsauglýsingunni er einnig tekið fram að væntanlegur rektor LHÍ verði að hafa hreint orðspor. Spurður um hvað felist í þessu, segir Magnús:
„Þetta er kannski sjónarmið sem er sérstaklega mikilvægt í Me Too umhverfi okkar í dag. Eldri tegund af svona auglýsingu myndi kannski fara fram á hreint sakavottorð, sem er að sjálfsögðu eitthvað sem við viljum líka hafa. Við viljum ekki valda einhverjum usla í samfélaginu með ráðningunni.“
Magnús tekur þó fram að krafan um hreint orðspor byggist vissulega á huglægu mati.
„Ég hvet alla sem hafa hæfi til þess að sækja um. Við viljum bara veg stofnunarinnar sem mestan. Þessi punktur var mikið ræddur en við ákváðum þetta svona á endanum,“ segir hann.
Áhyggjur kennara LHÍ snúast meðal annars að því að hægt sé að túlka orðalag auglýsingarinnar þannig að lýst sé eftir einstaklingi úr stjórnsýslunni fremur en einhverjum sem er með reynslu og fagþekkingu á sviði lista. Magnús þvertekur fyrir að svo sé.
„Nei, Guð minn almáttugur. Það gilda lög um háskóla á Íslandi, þau munu gilda um þessa ráðningu. Mér finnst þessi umræða bara mjög sérstök. Í auglýsingunni okkar á vef Listaháskólans er vísað í þetta lagaumhverfi,“ segir hann.

Ekki á borði ráðuneytis
Í skriflegu svari við fyrirspurn Fréttablaðsins segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra að ráðningarferlið sé í höndum stjórnar Listaháskólans sem jafnframt beri ábyrgð á auglýsingunni.
,,Ráðningarferlið hefur því hvorki komið inn á mitt borð sem ráðherra né verið í farvegi innan ráðuneytisins,“ segir Áslaug.
Hún vísar enn fremur öllum spurningum um ráðningarferlið til stjórnar LHÍ.
„Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið hefur þó vakið athygli stjórnarformanns Listaháskólans að í lögum um háskóla er kveðið á um að rektor skuli uppfylla kröfur sem háskólakennari á einu eða fleiru viðurkenndu fræðasviði viðkomandi Háskóla og hefur ráðuneytið fengið þau viðbrögð þaðan að stjórn skólans og hæfnisnefnd séu meðvituð um þennan lagabókstaf,“ segir í svari ráðherra.