Borið hefur á ó­á­nægju með orða­lag starfs­aug­lýsingar um em­bætti nýs rektors meðal starfs­manna Lista­há­skólans. Stjórnar­for­maður LHÍ segir af og frá að aug­lýsingin standist ekki há­skóla­lög.

Starfs­menn Lista­há­skóla Ís­lands eru uggandi vegna orða­lags í starfs­aug­lýsingu stofnunarinnar um em­bætti nýs rektors sem birt var í síðustu viku. Í hæfnis­kröfum sem til­teknar eru kemur meðal fram að um­sækj­endur þurfi að hafa víð­tæka þekkingu á rann­sóknum og starfi há­skóla auk stað­góðrar þekkingar á listum og skapandi greinum.

Þar stendur enn fremur: „Reynsla á ein­hverju af fag­sviðum Lista­há­skóla Ís­lands er kostur.“

Nokkrir kennarar LHÍ sem Frétta­blaðið ræddi við en vilja ekki koma fram undir nafni hafa á­hyggjur af því að þetta orða­lag brjóti í bága við 15. grein laga um há­skóla þar sem fjallað er um stjórn­skipan há­skóla hér á landi. Sam­kvæmt þeim lögum skulu rektorar upp­fylla kröfur 1. mgr. 18. gr. „sem há­skóla­kennari á einu eða fleiri viður­kenndum fræða­sviðum við­komandi há­skóla“.

„[Þeir sem bera framan­greind starfs­heiti skulu hafa þekkingu og reynslu í sam­ræmi við al­þjóð­leg við­mið fyrir við­komandi starfs­heiti á þeirra fræða­sviði, stað­fest með á­liti dóm­nefndar eða með doktors­prófi frá viður­kenndum há­skóla.] 1) Þeir skulu jafn­framt hafa sýnt þann árangur í starfi að þeir njóti viður­kenningar á við­komandi sér­sviði,“ segir í lögunum.

Auglýsingin sem um ræðir.

Hafnar því að auglýsingin brjóti lög

Stjórn LHÍ samdi starfs­aug­lýsinguna og ber á­byrgð á henni. Í stjórn LHÍ sitja fimm manns, þar af tveir full­trúar mennta- og menningar­mála­ráðu­neytisins (nú há­skóla­ráðu­neytið) þar á meðal stjórnar­for­maður, Magnús Ragnars­son. Magnús hafnar því al­farið að aug­lýsingin brjóti í bága við há­skóla­lög.

„Við höfum um­hverfi þar sem gilda lög um há­skóla og að sjálf­sögðu munum við fara eftir þeim. Við hins vegar teljum það vera kostur að um­sækjandi sé með reynslu af þessum fag­sviðum af því þeir sem koma til greina undir lögum um há­skóla eru miklu víð­tækari en bara fag­sviðin okkar,“ segir Magnús.

Þetta er kannski sjónar­mið sem er sér­stak­lega mikil­vægt í Me Too um­hverfi okkar í dag

Að sögn Magnúsar myndi hæfnis­nefnd Lista­há­skólans aldrei taka annað til greina en að ráða ein­stak­ling sem stæðist þær kröfur sem teknar eru fram í há­skóla­lögum.

„Hún er skipuð af fag­menntuðum ein­stak­lingum og há­skóla­rektorum. Hún er skipuð af fag­fólki og er bara sama hæfnis­nefnd og er við störf í dag í há­skólum. Það er enginn úr stjórn í henni.“

Í starfs­aug­lýsingunni er einnig tekið fram að væntan­legur rektor LHÍ verði að hafa hreint orð­spor. Spurður um hvað felist í þessu, segir Magnús:

„Þetta er kannski sjónar­mið sem er sér­stak­lega mikil­vægt í Me Too um­hverfi okkar í dag. Eldri tegund af svona aug­lýsingu myndi kannski fara fram á hreint saka­vott­orð, sem er að sjálf­sögðu eitt­hvað sem við viljum líka hafa. Við viljum ekki valda ein­hverjum usla í sam­fé­laginu með ráðningunni.“

Magnús tekur þó fram að krafan um hreint orð­spor byggist vissu­lega á hug­lægu mati.

„Ég hvet alla sem hafa hæfi til þess að sækja um. Við viljum bara veg stofnunarinnar sem mestan. Þessi punktur var mikið ræddur en við á­kváðum þetta svona á endanum,“ segir hann.

Á­hyggjur kennara LHÍ snúast meðal annars að því að hægt sé að túlka orða­lag aug­lýsingarinnar þannig að lýst sé eftir ein­stak­lingi úr stjórn­sýslunni fremur en ein­hverjum sem er með reynslu og fag­þekkingu á sviði lista. Magnús þver­tekur fyrir að svo sé.

„Nei, Guð minn al­máttugur. Það gilda lög um há­skóla á Ís­landi, þau munu gilda um þessa ráðningu. Mér finnst þessi um­ræða bara mjög sér­stök. Í aug­lýsingunni okkar á vef Lista­há­skólans er vísað í þetta laga­um­hverfi,“ segir hann.

Málið fellur undir ráðuneyti Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur.
Fréttablaðið/Valli

Ekki á borði ráðuneytis

Í skrif­legu svari við fyrir­spurn Frétta­blaðsins segir Ás­laug Arna Sigur­björns­dóttir, há­skóla-, iðnaðar og ný­sköpunar­ráð­herra að ráðningar­ferlið sé í höndum stjórnar Lista­há­skólans sem jafn­framt beri á­byrgð á aug­lýsingunni.

,,Ráðningar­ferlið hefur því hvorki komið inn á mitt borð sem ráð­herra né verið í far­vegi innan ráðu­neytisins,“ segir Ás­laug.

Hún vísar enn fremur öllum spurningum um ráðningar­ferlið til stjórnar LHÍ.

„Há­skóla-, iðnaðar- og ný­sköpunar­ráðu­neytið hefur þó vakið at­hygli stjórnar­for­manns Lista­há­skólans að í lögum um há­skóla er kveðið á um að rektor skuli upp­fylla kröfur sem há­skóla­kennari á einu eða fleiru viður­kenndu fræða­sviði við­komandi Há­skóla og hefur ráðu­neytið fengið þau við­brögð þaðan að stjórn skólans og hæfnis­nefnd séu með­vituð um þennan laga­bók­staf,“ segir í svari ráð­herra.