Van­reiknaðar kjara­bætur allra heil­brigðis­starfs­manna á Land­spítalanum er um milljarður á ári en þetta kemur fram í kvöld­fréttum RÚV. Þar af vantar Land­spítalann fimm hundruð milljónir til að takast á við launa­hækkanir lækna eftir kjara­samningana sem skrifað var undir árið 2019.

„Ég held að enginn hafi hugsað sér að launa­hækkanir ein­stakra heil­brigðis­stétta kæmu niður á þjónustunni,“ sagði Svan­dís Svavars­dóttir heil­brigðis­ráð­herra í sam­tali við RÚV um málið en um­fangs­miklar skipu­lags­breytingar standa nú yfir á spítalanum.

„Það að ein­hverjar á­kvarðanir komi niður á þjónustunni eru sístu á­kvarðanirnar ef það er þannig. Ég myndi vilja sjá að spítalinn næði utan um þessi mál án þess að það kæmi niður á þjónustunni,“ sagði Svan­dís.

Að­gerðar­á­ætlanir ætlað að skila milljörðum

Í for­stjóra­pistli Páls Matthías­sonar frá því á föstu­daginn kemur fram að ekki sé auð­velt verk að hag­ræða í rekstri spítalans. „Það er ekki létt verk enda finnst okkur flestum hverri krónu vel varið í þjónustu við sjúk­linga á Land­spítala og ekki ein­falt að ná jafn­vægi milli þeirra krafna sem gerðar eru til þjónustunnar og þeirra fjár­veitinga sem ríkis­valdið ætlar til hennar,“ skrifar Páll í pistlinum.

Þá kemur fram að jafn­vægi hafi verið náð í rekstri Land­spítalans í kjöl­far hrunsins en að síðustu misseri hafi reynst stjórn­endum þung. Á­ætlað er að að­halds­að­gerðirnar skili nærri eins milljarðs sparnaði á þessu ári og tveimur og hálfum milljarði á því næsta.

Meðal að­gerða sem gripið hefur verið til má nefna að fram­kvæmda­stjórum hafi verið fækkað og laun þeirra lækkuð, ýmsum við­bótar­kjörum hjúkrunar­fræðinga og ljós­mæðra sagt upp og að fram undan sé endur­skoðun á vinnu­skipu­lagi.

„Þurfum að gefa í en ekki draga saman“

Ebba Margrét Magnús­dóttir, for­maður lækna­ráðs Land­spítalans, telur ó­hjá­kvæmi­legt að niður­skurðar­að­gerðirnar komi niður á þjónustu og segir starfs­menn spítalans hafa unnið hörðum höndum allt frá hruni. „Þetta er pínu­lítið eins og blaut tuska framan í and­litið,“ sagði Ebba í kvöld­fréttum RÚV.

„Eðli þessarar stofnunnar er ekki eins og verk­smiðja þar sem þú getur lokað einni línu,“ sagði Ebba og bætir við að ekki sé hægt að stjórna því hvaða slys verða eða hvaða flensur ganga. „Fólkið á gólfinu hefur pínu­lítið fengið nóg og ég held að við þurfum að gefa í en ekki draga saman,“ sagði Ebba að lokum.