Umhverfisstofnun telur forsendur fyrir refaveiðum brostnar, meðal annars vegna breytinga í landbúnaði, og finna ætti annað fyrirkomulag, einkum með tilliti til fuglaverndar. Meira en 56 þúsund refir hafa verið veiddir undanfarin áratug með kostnað upp á tæpan milljarð fyrir ríki og sveitarfélög.

„Búfénaður virðist ekki verða fyrir tjóni. Við höfum kallað eftir tilkynningum um tjón en þær berast ekki, nema einstaka tilkynningar um æðarvarp,“ segir Steinar Rafn Beck Baldursson, sérfræðingur í veiðistjórnun hjá Umhverfisstofnun.

„Refurinn er sagður lævís og grimmur og verk hans vinna gegn honum. Enda fær hann makleg málagjöld. Hann er réttdræpur hvar sem hann hittist,“ sagði Kristján Eldjárn í heimildarmynd Ósvalds Knudsen, Refurinn gerir greni í urð frá árinu 1961. Frá landnámi höfðu bændur verið í stríði við dýrbítinn um sauðkindina og toll þurftu allir að greiða sem ekki veiddu ref.

„Mér finnst líklegasta ástæðan sú að kindur eru hættar að bera úti,“ segir Steinar aðspurður hvers vegna refurinn sé ekki lengur þessi skaðvaldur sem hann var. „Áður fyrr sóttu refirnir í nýfædd lömb eða fóru aftan í kindur þegar þær voru að bera.“

Stofninn var aðeins 1.200 dýr við upphaf talninga, árið 1979, en óx upp í tæp 9.000 árið 2007. Hrun varð um 30 prósent árin 2008 til 2010 en stofninn hefur verið nokkuð stöðugur undanfarin ár og veiðin aukist. Árið 2020 voru 7.227 refir veiddir, sem er það mesta í 40 ár.

134 milljónir fyrir skott

Sveitarfélögum er skylt að greiða refaskyttum fyrir hvert skott frá hausti fram á vor. Hefur árlegur kostnaður þeirra aukist úr 67 milljónum árið 2011 í tæpar 134 milljónir árið 2020. Síðan 2014 hefur ríkið tekið á sig fjórðung eða fimmtung kostnaðarins og reynt er að jafna hann fyrir fámenn og víðfeðm sveitarfélög.

Gagnrýni á veiðarnar hefur komið fram, svo sem í umræðum skotveiðimanna. Að refaveiðar séu launuð sportveiði og vani frekar en nauðsyn. Á yfirstandandi þingi spurði Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, Guðmund Inga Guðbrandsson umhverfisráðherra út í veiðarnar.

Sá síðarnefndi lagði fram frumvarp um breytingar á veiðilöggjöfinni sem náði ekki í gegn á þinginu. Samkvæmt því hefði verið sett stjórnunar- og verndaráætlun fyrir refinn.

Steinar segist vona að frumvarpið komist í gegn en stofnunin sé þegar farin að huga að slíkri áætlun fyrir rjúpuna. Refurinn myndi koma seinna. „Það væri eðlilegast að endurskoða allt þetta fyrirkomulag. Kannski aðeins að stunda vetrarveiðar en ekki grenjaveiði,“ segir hann.