Yfir 60% þeirra sem látist hafa með kórónaveiruna í Moskvu eru ekki taldir með í opinberum dánartölum.

Þetta sagði rússneskur embættismaður í gær en gagnrýnendur hafa dregið lága dánartíðni þar vegna veirunnar í efa.

Í gær voru 126.004 skráð kóronaveirutilfelli í Moskvu og höfðu 1.232 látist af völdum veirunnar samkvæmt opinberum tölum.

Lægri skráð dánartíðni en víða annars staðar

Heilbrigðisyfirvöld í Rússlandi telja einungis þau dauðsföll sem meinafræðingur metur að veiran hafi átt beinan þátt í, er segir í frétt The Moscow Times.

Önnur andlát þeirra sem greinast með veiruna eru þá ekki tekin með inn í þá tölfræði.

Moskva hefur verið lága dánartíðni samanborið við aðrar stórborgir og hafa sumir sérfræðingar grunað að upplýsingagjöf borgarinnar sé ábótavant.

Fram kom í tilkynningu frá heilbrigðissviði Moskvu að talið sé að yfir 60% sýktra sjúklinga hafi fallið frá vegna annarra orsaka, þar á meðal langt genginna sjúkdóma og annarra sem megi rekja til líffærabilunar.

Vísa gagnrýni á bug

Yfirvöld í Moskvu greindu frá 639 dauðsföllum í apríl sem tengd voru COVID-19 með beinum hætti.

Ef miðað er við uppgefið hlutfall má þá reikna með því að um 1.597 sýktir einstaklingar hafi látið lífið í mánuðinum.

Heilbrigðisyfirvöld borgarinnar verja aðferðafræði sína og segja það af og frá að fjöldi dauðsfalla af völdum veirunnar væri vanáætlaður.

Bráðabirgðatölur frá þjóðskrá gefa til kynna að 20% fleiri hafi látið lífið í Moskvu í apríl en að jafnaði síðustu tíu ár.

Bendir ýmislegt til þess að þá aukningu megi tengja við heimsfaraldurinn.