Ekki leikur grunur á að nokkuð saknæmt hafi átt sér stað við andlát Árna Björns Jónassonar, sem fannst látinn í Laxá í Aðaldal eftir að hans var saknað aðfaranótt mánudags. Þetta staðfestir Bergur Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá rannsóknardeild lögreglunnar á Akureyri, í samtali við Fréttablaðið.

„Því beinist rannsókn lögreglu í augnablikinu að tveimur tilgátum; að slys hafi átt sér stað, eða að upp hafi komið skyndileg veikindi sem hafi orsakað andlát hans,“ segir Bergur.

Hafa farið fram á réttarkrufningu

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út ásamt björgunarsveitum á Norðurlandi eftir að Árni Björn skilaði sér ekki til baka að veiðitíma loknum eftir klukkan 22:00 á sunnudagskvöldi. Hann hafði farið í veiðiferðina með öðrum en var einn við veiði á þeim veiðistað þar sem hann fannst síðar látinn að sögn lögreglu.

Lögregla hefur farið fram á réttarkrufningu svo unnt sé að úrskurða um dánarsök. Niðurstaða hennar liggur ekki fyrir að svo stöddu.

Árni Björn Jónasson, 73 ára verkfræðingur, lést á aðfaranótt mánudags.