Líkamsleifar ungs manns sem fundust skammt frá heimili Murdaugh-fjölskyldunnar fyrir sjö árum verða grafnar upp vegna mögulegra tengsla við morðmál sem hefur verið gríðarlega áberandi í fjölmiðlum vestanhafs. Fjölskylda mannsins greinir frá þessu.

Hinn nítján ára gamli Stephen Smith fannst látinn í júlí árið 2015 í Suður Karólínu-fylki, ekki langt frá heimili Murdaugh-fjölskyldunnar sem hefur verið í brennidepli Bandarískra fjölmiðla undanfarnar vikur. New York Post fjallar um málið.

Á dögunum var fjölskyldufaðirinn Alex Murdaugh fundinn sekur um að hafa skotið eiginkonu sína og son, Maggie og Paul, til bana á umræddu heimili þeirra. Hann neitaði sök, en á nú yfir höfði sér tvo lífstíðardóma.

Dularfullt andlát Smith hlaut aukna athygli í kringum réttarhöldin yfir Murdaugh, en fram til dagsins í dag þótti nokkuð óljóst hvað hafði orðið honum að bana. Talið var að Smith hefði verið fórnarlamb óvæntrar skotárásar þar sem árásarmaðurinn hefði komið sér á brott.

Ákæruvaldið og dómsvaldið hafa ekki útilokað tengsl við Murdaugh-málið, en einhver vitni telja að andlát Smith gætu tengst skólabróður hans Buster Murdaugh, öðrum syni morðingjans. Þá virðist móðir Smith sannfærð um að tengsl séu á milli málanna tveggja.

Líkamsleifar Stephen Smith verða grafnar upp og gerð sérstök krufning með tengls við Murdaugh-fjölskylduna í huga.