Í nýrri skýrslu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, WHO, er því haldið fram að fjöldi dauðsfalla hjá heilbrigðisstarfsfólki af völdum Covid-19 sé mun hærri en opinberar tölur gefi til kynna.

Fyrr á þessu ári var ályktað að af þeim 3,45 milljónum sem hefðu látist í faraldrinum á sextán mánaða tímabili væru 6.643 heilbrigðisstarfsmenn. Alþjóðaheilbrigðissambandið telur að sú tala geti verið allt frá 80 þúsund upp í 180 þúsund.

Um leið kalla samtökin eftir því að betur sé hugað að heilbrigðisstarfsfólki í ljósi þess að sífellt stærri hluti starfsgreinarinnar upplifi kulnun í starfi, kvíða og ofþreytu.

Heilbrigðisstarfsfólk líklegra til að smitast úti í samfélaginu

Í skýrslunni er heilbrigðisstarfsfólk tilgreint sem allir sem koma að því að aðstoða einstaklinga sem hafa greinst með Covid-19. Þar kemur fram að heilbrigðisstarfsfólk sé líklegra til að gæta smitvarna í störfum og sé í raun örlítið líklegra til að smitast út í samfélaginu en á vinnustaðnum.

Heilt yfir er áætlað að um 115 þúsund heilbrigðisstarfsmenn hafi látið lífið af völdum Covid-19 í heimsfaraldrinum en um leið að fjöldi dauðsfalla geti verið frá 80 þúsundum upp í 180 þúsund.

Í umræðukafla skýrslunnar er tekið fram að ekki sé vitað fyrir víst hvort öll lönd skrái dauðsföll heilbrigðisstarfsmanna af völdum Covid-19 né hvort starfsfólk sem látist utan sjúkrahúss af völdum sjúkdómsins sé tekið með í tölfræðinni sem stofnuninni berist. Því sé mikilvægt að heilbrigðisyfirvöld í hverju landi skrái öll dauðsföll af völdum Covid-19 hjá starfsfólki sínu.