Jóhannes Þór Skúla­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka ferða­þjónustunnar, á ekki von á því að færsla Ís­lands af hættu­stigi 1 í hættu­stig 3 hjá Sótt­varna­stofnun Banda­ríkjanna eigi eftir að hafa mikil á­hrif á ferðir Banda­ríkja­manna til landsins. Sig­ríður Dögg Guð­munds­dóttir, fag­stjóri ferða­þjónustu hjá Ís­lands­stofu, tekur undir orð Jóhannesar.

„Það þarf að skoða tvo hluti og það er flokka­breyting hjá CDC og svo ferða­ráð- og við­varanir frá utan­ríkis­ráðu­neyti Banda­ríkjanna og ferða­við­vörunum al­mennt til fólks. Þessi breyting hjá CDC er fyrst og fremst gagn­vart óbólu­settum,“ segir Jóhannes Þór sem segir að það hafi tvennt í för með sér.

Í fyrsta lagi er varað við því að á­standið á Ís­landi sé verra en það var og það séu meiri líkur á að smitast og því ættu óbólu­settir ekki að ferðast þangað að nauð­synja­lausu.

Flestir bólusettir

Hann segir að ráðin til þeirra sem eru bólu­sett hafi ekki breyst mikið og býst ekki við því að sjá breytingu meðal ferða­manna strax, þó að það gæti breyst síðar.

„Eins og stendur hefur það ekki haft á­hrif á þessi grunn­ráð sem bólu­settir fá. Svo má taka það til greina líka að Sótt­varna­stofnun Banda­ríkjanna al­mennt mælir gegn því að óbólu­settir ferðist er­lendis yfir­höfuð,“ segir Jóhannes og bætir við:

„Við teljum ekki að þetta hafi af­gerandi á­hrif, ekki á þær bókanir sem eru þegar komnar í kerfið.“

Lang­stærstur hluti Banda­ríkja­manna eru bólu­settir, er það ekki?

„Jú nærri hver einn og einasti, það er undan­tekning ef svo er ekki,“ segir Jóhannes Þór.

Mynd/Aðsend

Hefur ekki áhrif á markaðsaðgerðir

Sig­ríður Dögg Guð­munds­dóttir, fag­stjóri ferða­þjónustu hjá Ís­lands­stofu, tekur undir orð Jóhannesar og telur ekki að þessi breyting muni hafa á­hrif á ferða­lög Banda­ríkja­manna til Ís­lands.

„Við teljum ekki að þetta hafi á­hrif því þetta eru mest bólu­settir ferða­menn sem koma frá Banda­ríkjunum og það hafa verið mjög strangar reglur fyrir óbólu­settu frá því í fyrra,“ segir Sig­ríður Dögg.

Hún segir að núna verði líka að líta til þess sam­tals sem á sér stað núna um al­var­leg veikindi á meðal þeirra sem smitast og það verði kannski að horfa meira á inn­lagnir en smit­fjölda í þessari nýjustu bylgju far­aldursins til að meta al­var­leika.

Hvað varðar markaðs­að­gerðir segir Sig­ríður Dögg að það séu að­gerðir í gangi í Banda­ríkjunum núna en tekur fram að það séu að­gerðir í gangi allt árið um kring, alltaf.

„við sjáum ekki fram á að þetta hafi bein á­hrif á það núna því það er auð­vitað mikil­vægt að halda dampi í markaðs­að­gerðum til að við­halda vitund um á­fanga­staðinn og þessar markaðs­að­gerðir sem við erum í núna snúa að markaðs­vitund til lengri tíma. Þó svona breytingar verði þá hefur það ekki á­hrif á okkar að­gerðir,“ segir Sig­ríður Dögg.

Hún segir að það hafi verið sér­kenni­legt að stunda markaðs­starf á tímum CO­VID en að segir að það sé mikil­vægt að halda því gangandi.

„Bólu­setningin breytir auð­vitað öllu og hversu hátt hlut­fall er bólu­sett hér á landi. Það skiptir gríðar­lega miklu máli,“ segir Sig­ríður Dögg.