Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, á ekki von á því að færsla Íslands af hættustigi 1 í hættustig 3 hjá Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna eigi eftir að hafa mikil áhrif á ferðir Bandaríkjamanna til landsins. Sigríður Dögg Guðmundsdóttir, fagstjóri ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu, tekur undir orð Jóhannesar.
„Það þarf að skoða tvo hluti og það er flokkabreyting hjá CDC og svo ferðaráð- og viðvaranir frá utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna og ferðaviðvörunum almennt til fólks. Þessi breyting hjá CDC er fyrst og fremst gagnvart óbólusettum,“ segir Jóhannes Þór sem segir að það hafi tvennt í för með sér.
Í fyrsta lagi er varað við því að ástandið á Íslandi sé verra en það var og það séu meiri líkur á að smitast og því ættu óbólusettir ekki að ferðast þangað að nauðsynjalausu.
Flestir bólusettir
Hann segir að ráðin til þeirra sem eru bólusett hafi ekki breyst mikið og býst ekki við því að sjá breytingu meðal ferðamanna strax, þó að það gæti breyst síðar.
„Eins og stendur hefur það ekki haft áhrif á þessi grunnráð sem bólusettir fá. Svo má taka það til greina líka að Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna almennt mælir gegn því að óbólusettir ferðist erlendis yfirhöfuð,“ segir Jóhannes og bætir við:
„Við teljum ekki að þetta hafi afgerandi áhrif, ekki á þær bókanir sem eru þegar komnar í kerfið.“
Langstærstur hluti Bandaríkjamanna eru bólusettir, er það ekki?
„Jú nærri hver einn og einasti, það er undantekning ef svo er ekki,“ segir Jóhannes Þór.

Hefur ekki áhrif á markaðsaðgerðir
Sigríður Dögg Guðmundsdóttir, fagstjóri ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu, tekur undir orð Jóhannesar og telur ekki að þessi breyting muni hafa áhrif á ferðalög Bandaríkjamanna til Íslands.
„Við teljum ekki að þetta hafi áhrif því þetta eru mest bólusettir ferðamenn sem koma frá Bandaríkjunum og það hafa verið mjög strangar reglur fyrir óbólusettu frá því í fyrra,“ segir Sigríður Dögg.
Hún segir að núna verði líka að líta til þess samtals sem á sér stað núna um alvarleg veikindi á meðal þeirra sem smitast og það verði kannski að horfa meira á innlagnir en smitfjölda í þessari nýjustu bylgju faraldursins til að meta alvarleika.
Hvað varðar markaðsaðgerðir segir Sigríður Dögg að það séu aðgerðir í gangi í Bandaríkjunum núna en tekur fram að það séu aðgerðir í gangi allt árið um kring, alltaf.
„við sjáum ekki fram á að þetta hafi bein áhrif á það núna því það er auðvitað mikilvægt að halda dampi í markaðsaðgerðum til að viðhalda vitund um áfangastaðinn og þessar markaðsaðgerðir sem við erum í núna snúa að markaðsvitund til lengri tíma. Þó svona breytingar verði þá hefur það ekki áhrif á okkar aðgerðir,“ segir Sigríður Dögg.
Hún segir að það hafi verið sérkennilegt að stunda markaðsstarf á tímum COVID en að segir að það sé mikilvægt að halda því gangandi.
„Bólusetningin breytir auðvitað öllu og hversu hátt hlutfall er bólusett hér á landi. Það skiptir gríðarlega miklu máli,“ segir Sigríður Dögg.