Yfirkjörstjórn í Suðurkjördæmi hefur ákveðið að ráðist verði í endurtalningu atkvæða í Suðurkjördæmi eftir að fjórir stjórnmálaflokkar fóru fram á slíkt.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Þórir Haraldsson, formaður yfirkjörstjórnar í Suðurkjördæmi, sendi frá sér um tvö leytið. Yfirkjörstjórn í Suðurkjördæmi kom saman til fundar um klukkan hálf tvö í dag.

Það var ansi mjótt á munum í kjördæminu, einungis munaði sjö atkvæðum á lista Vinstri grænna sem náðu ekki inn manni og Miðflokksins sem náði inn síðasta kjördæmakjörna þingmanni innan Suðurkjördæmis.

„Talning fer fram í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi í dag, 27. september, 2021, og hefst kl. 19. Umboðsmenn framboðslista verða boðaðir til fundar með yfirkjörstjórn á sama stað kl. 18:30. Talning verður fyrir opnum tjöldum í samræmi við lög,“ segir í tilkynningunni.