Dr. Ynda Eldborg, sýningarstýra og listfræða og Viktoría Guðnadóttir, myndlistarmanneskja og sýningarstýra, telja listfræðinginn Aðalstein Ingólfsson hafa farið nokkuð fram úr sér í gagnrýni sinni á listsýningunni Til sýnis: Hinsegin umfram aðra, sem haldin var í Nýlistasafninu 8. október til 20. nóvember 2022.

Þetta kemur fram í skoðanapistli sem birtist á síðum Fréttablaðsins í dag sem ber titilinn „Æ, góði besti gáðu nú að þér“ en þar telja þær Ynda og Viktoría upp nokkur dæmi þar sem þær telja mega „glöggt sjá hvernig hvítur gagnkynhneigður karlmaður í valdastöðu fer fram af lítilsvirðingu gagnvart konum og hinsegin fólki í íslenskum listheimum.“

Aðalsteinn fór þar nokkuð hörðum höndum um sýninguna í yfirferð sinni á listaárinu 2022 en hún birtist í Fréttablaðinu þann 31. Desember á síðasta ári og ber heitið „Listin sem gefur lífi okkar gildi“. Þar birti Aðalsteinn yfirlit yfir sýningar ársins en telur einnig að mikilvægt sé að leggja dóm á listina þar sem slík „um­ræða er einskis virði ef hún er ekki opin­ská; gerir vægðar­laust, en af rök­festu, upp á milli þess sem heppnast og þess sem mis­heppnast,“ eins og Aðalsteinn tekur fram í umfjöllun sinni.

Það sem stingur helst í augu Yndu og Viktoríu eru ummæli Aðalsteins um sýninguna en þar segir hann:

„Svo koma sýningar þar sem haldast í hendur fá­fræði og fá­fengi­leg­heit. Yfir­standandi sýning um „hin­segin lista­fólk“ gerir því til dæmis skóna að tvær merkar lista­konur, Róska og Dor­ot­hy Iann­one, séu/hafi verið þeim megin við stak­ketið, sem enginn fótur er fyrir“

Sýningar kvenna

Viktoría og Ynda byrja í pistli sínum á því að nefna dæmi úr umfjöllun Aðalstein um listasýningar kvenna og hinsegin fólks í gegnum árin og byrja þær frá árinu 1985 þegar stóra kvennasýningin, Hér og nú: Listahátíð kvenna, var haldin á Kjarvalsstöðum. En það hafi verið í fyrsta sinn sem konur tóku sig saman og héldu stóra sýningu á verkum sínum.

Þær telja að gagnrýni Aðalsteins á sýningunni hafi byggt á fáfræði þar sem hann telji sig ekki vita til þess að „myndlistarkonum hafi nokkurn tímann verið mismunað á grundvelli kynferðis síns“. Nokkuð sem Ynda og Viktoría telja alrangt þar sem þær telja Aðalstein ekki nægilega víðsýnan í umfjöllun sinni um þjóðfélagsaðstæður kvenna enda hefði það leitt til þess að hann hefði þá „þurft að viðurkenna að konur voru og eru hlekkjaðar við eldhúsvaskinn og neyddar til að bera rjómatertur á höfðinu til hátíðabrigða þegar stund gafst frá heimilisþrældómi.“

Sýningar hinsegin fólks

Næst taka Viktoría og Ynda til dæmi um umfjöllun Aðalsteins um hinsegin sýningar en þar nefna þær sem dæmi umfjöllun hans um sýningu Viktoríu sem fram fór í Gallerí Hlemmi árið 2002. Í pistli sínum segja þær aðHérna gefur hann til kynna yfirgripsmikla þekkingu á stöðu samkynhneigðra en sleppir því að minnast á tvíkynhneigða og transfólk sem sannarlega voru orðin hluti af hinsegin menginu þetta árið. Hins vegar, þegar kemur að umfjöllun þessa, að því er virðist, víðlesna gáfumanns um sýningu Viktoríu, er annað upp á teningnum. Þá eru verk Viktoríu ómöguleg. Það er augljóst að hann hvorki þekkir né skilur hinsegin fagurfræði fyrir utan regnbogafánann sem hann sá bregða fyrir í einu myndskeiði.

Aðalstein hafi misst af lestinni

Ynda og Viktoría segja að umfjöllun Aðalsteins um sýningar hinsegin fólks og sýningar kvenna séu dæmi um það að hann sjálfur „hafi sjálfur misst af póstmódernísku lestinni sem hann talar svo fjálglega um“ í umfjöllun sinni um sýningu Viktoríu Guðnadóttur Pride en orðræða hans ásamt umjöllun hans um nýafstaðna sýningu hinsegin fólks í Nýlistasafninu sé dæmi um að hér sé „einungis á ferðinni þröngsýnn, skilningssljór cishet karl sem hefur allt á hornum sér og geltir að hinsegin fólki og myndlist þess eins og óþveginn götustrákur og telur sýninguna merki um „fáfræði og fáfengilegheit““