Talið er að Vladímír Pútín Rússlandsforseti muni senda Vesturlöndum „dómsdagsviðvörun“ næsta mánudag, 9. maí, er Rússar fagna 77 árum frá sigri Sovétmanna á nasistum í síðari heimsstyrjöldinni, að sögn Reuters.
Talið er að Pútín muni halda ræðu á Rauða torginu í Moskvu frammi fyrir fylktu liði hermanna, skriðdreka, herflugvéla og langdrægra skotflauga. Að sögn varnarmálaráðuneytis Rússa munu herþotur og Tu-160 sprengjuflugvélar fljúga yfir Dómkirkju heilags Basils ásamt „dómsdags“ yfirherflugvélinni Il-80 sem mun sjást á slíkum viðburði í fyrsta sinn síðan 2010.
Ef svo fer að Rússland efni til kjarnorkustríðs mun sú flugvél verða hreyfanleg stjórnstöð Rússlandsforseta og hæstráðandi yfirmanna rússneska hersins. Flugvélin er búin hátæknilegum búnaði en nákvæmar upplýsingar um hana eru hernaðarleyndarmál.
Pútín hefur reglulega líkt stríðinu í Úkraínu við stríði Sovétríkjanna gegn Þýskalandi nasismans í síðari heimsstyrjöldinni en Vesturlönd hafa hafnað þeirri orðræðu sem þvælu og sakað Rússa um tilefnislaus grimmdarverk í kjölfar innrásarinnar.
Ýmsir hafa velt vöngum yfir því að Pútín gæti gripið tækifærið á sigurdaginn 9. maí til að lýsa formlega yfir stríði gegn Úkraínu eða stigmagna átökin á annan hátt.
„Að öllum líkindum mun Pútín þá lýsa yfir stríði, þótt hann sé búinn að vera í stríði í yfir tvo mánuði, til þess að geta þvingað fram herkvaðningu,“ sagði Óskar Hallgrímsson fyrr í vikunni.

Pútín hefur einnig haldið áfram að hóta mögulegri árás á aðildarríki Atlantshafsbandalagsins, eitthvað sem myndi án efa virkja 5. grein NATO-samningsins þar sem því er lýst að árás á eitt bandalagsríki jafngildi árás á þau öll og gæti greitt leiðina fyrir heimsstyrjöld.
Varnarviðbúnaður NATO-ríkjanna á eystri væng sambandsins, frá Eystrasaltslöndunum í norðri niður til Búlgaríu og Svartahafs í suðri, samanstendur í dag af um 330.000 hermönnum. Inni í þeim fjölda eru herir aðildarríkjanna ásamt liðsauka frá Vestur-Evrópu, Bandaríkjunum og Kanada. Til viðbótar við fótgönguliða eru hátt í 130 NATO-herflugvélar í viðbragðsstöðu og um 150 herskip sinna sjógæslu, samkvæmt upplýsingum The Financial Times.