Lögmaður Samtaka áhugafólks um spilafíkn (SÁS) telur starfsemi spilasala á vegum Happdrættis Háskóla Íslands (HHÍ) ólögmæta og refsiverða. Þetta kemur fram í bréfi sem lögmaðurinn sendi til Happdrættis Háskólans þann 8. mars síðastliðinn.

Í bréfinu kemur fram að að þrátt fyrir að rekstur spilakassa sé refsiverður samkvæmt lögum hér á landi, hafi HHÍ „óljósa“ undanþágu frá lögunum sem „virðist ekki vera í neinu samræmi við þann veruleika sem rekstur spilakassa og spilasala hefur verið á undanförnum árum og áratugum.“

Refsivert að gera sér fjárhættuspil að atvinnu

Samkvæmt lögum er hér á landi refsivert að gera sér fjárhættuspil að atvinnu sem og að afla sér tekna með því að láta fjárhættuspil fara fram í húsnæði viðkomandi. Í umræddu bréfi segir að rekstur spilasala á vegum HHÍ sé kominn langt út fyrir upphaflega heimild og undanþágu, þá hafi verið takmarkað eftirlit með rekstrinum.

Háspenna ehf. hafi hagnast á rekstri spilavéla á vegum HHÍ og þannig stundað „ólögmæta og refsiverða starfsemi í mörg ár fyrir tilstuðlan Happdrætti Háskóla Íslands og haft af því mjög ríflegar tekjur.“

Miðað við ársreikninga Há­spennu ehf. voru hreinar tekjur félagsins vegna áranna 2018 og 2019 samanlagt um 120 milljónir króna og segir í bréfinu að fyrirtækið sé skráð sem fjárhættu- og veðlánastarfsemi. Það hljóti að „vera einsdæmi að einkahlutafélag sé skráð opinberri skráningu vegna ólögmætrar og refsiverðrar starfsemi.“

Gerir kröfu um slit á samstarfinu

Lögmaðurinn gerir þá kröfu að Happdrætti Háskólans slíti samstarfi sínu við Háspennu og leggi niður starfsemi spilakassa innan tíu daga frá dagsetningu bréfsins. Verði ekki orðið við kröfunni verði umrædd starfsemi kærð til lögreglu.

Alma Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka áhugafólks um spilafíkn, segir í samtali við Fréttablaðið að ekki hafi enn verið lögð fram kæra til lögreglu vegna málsins. Óskað hefur verið eftir útskýringum á svörum Happdrættis Háskólans við bréfinu.

Samtök áhugafólks um spilafíkn hafa undanfarið barist fyrir því að spilasölum og spilakössum hér á landi verði lokað. Á heimasíðu samtakanna hefur fjöldi fólks sem glímir við spilafíkn sagt sögu sína ásamt því að stór hópur hefur tjáð sig um það að þegar spilakassar hafi verið lokaðir vegna sóttvarnareglna hafi líf þeirra breyst til batnaðar og að stór hópur hafi náði tökum á fíkn sinni.

Í bréfinu sem um ræðir segir lögmaðurinn að vitað sé um fjölda einstaklinga sem áskilji sér rétt til að leita réttar síns gagnvart Happdrætti Háskólans, Háspennu ehf. og íslenska ríkinu og krefjast skaðabóta eða viðurkenningar á skaðabótaskyldu „vegna þess tjóns sem rekstur spilakassa hefur haft á afkomu og líf þeirra og fjölskyldna þeirra.“