Lög­reglan í borginni Stockton í Kali­forníu telur að rað­morðingi gangi laus í borginni. Fimm karlar hafa verið myrtir undan­farnar vikur við svipaðar kring­um­stæður og telur lög­regla senni­legt að sami ein­stak­lingur standi á bak við þau öll.

Allir karlarnir voru skotnir þegar þeir voru einir á ferli utan­dyra síðla nætur. Sá fyrsti var skotinn til bana í júlí­mánuði og síðan þá hafa fjórir verið myrtir með sama hætti.

Stanl­ey McFadden, lög­reglu­stjóri í Stockton, sagði á blaða­manna­fundi að lög­regla hafi rök­studdan grun um að sami ein­stak­lingur tengist öllum morðunum. Lög­regla hafi þegar úti­lokað að málin tengist glæpa­gengjum, fíkni­efna­við­skiptum eða haturs­glæpum.

Síðast­liðinn þriðju­dag var 54 ára karl­maður, Lorn­ezo Lopez, skotinn til bana í mið­borg Stockton. Þann 21. septem­ber var 52 ára karl­maður skotinn til bana og þann 30. ágúst var 21 árs karl­maður myrtur. Hin fórnar­lömbin voru 43 ára og 35 ára.

Lög­regla hefur þegar birt upp­tökur úr öryggis­mynda­vélum sem lög­regla telur að sýni morðingjann. Enn sem komið er hefur enginn verið hand­tekinn vegna málsins.