Nokkrir fylgjendur QAnon samsæriskenningarinnar telja að John F. Kennedy hafi mætt á fjöldafund í Arizona til stuðnings Donalds Trumps á laugardag dulbúinn sem sá síðarnefndi. Ljóst er að þeir hafa seilst nokkuð langt í samsæriskenningunum í þetta sinn því John F. Kennedy, eða JFK eins og hann er gjarnan kallaður, hefur verið látinn í rúm 58 ár og væri auk þess 104 ára gamall, hefði hann ekki verið myrtur í Dallas árið 1963.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem slík kenning skýtur upp kollinum en í nóvember síðastliðnum söfnuðust nokkrir QAnon fylgjendur saman við Dealey torg í Dallas þar sem JFK var myrtur sannfærðir um að fyrrum forsetinn myndi snúa aftur frá dauðum, ásamt syni sínum John F. Kennedy Jr. sem lést í flugslysi árið 1999, í þeim tilgangi að styðja við bakið á Trump.
Þá telja sumir að JFK Jr. muni verða varaforsetaefni Donalds Trumps í forsetakosningunum 2024, burt séð frá þeirri staðreynd að Kennedy, líkt og faðir hans, var demókrati.
QAnon samsæriskenningin hefur náð mikilli útbreiðslu á undanförnum árum meðal hægriöfgafólks og stuðningsmanna Donalds Trumps en hún snýst í stuttu máli um það að satanískur leynisöfnuður sem samanstendur af valdamiklu fólki haldi úti alþjóðlegum barnaníðshring.
Fylgjendur samsæriskenningarinnar telja Donald Trump vera einu von heimsbyggðarinnar gegn þessum illu öflum og þrá því ekkert heitar en að fyrrum forsetinn nái aftur völdum í Bandaríkjunum.

Segja Tupac og Kobe Bryant einnig hafa verið viðstadda
Að sögn fjölmiðilsins Vice samanstendur hópurinn sem trúir á JFK samsærið af rúmlega tuttugu manns undir stjórn öfgaleiðtogans Michael Protzman, einnig þekktur sem Negative48. Hópurinn ferðaðist rúma 1600 kílómetra frá Dallas til Arizona til að sækja fundinn á laugardag.
Protzman er sagður byggja kenningu sína á þeirri staðhæfingu að Trump virtist lægri á fundinum en Kari Lake, frambjóðandi repúblikana til ríkisstjóra Arizona. Átti þessi meinti hæðarmunur að sanna það að Trump hefði ekki komið fram í eigin persónu heldur væri um að ræða John F. Kennedy í dulargervi.
Aðrir QAnon fylgjendur hafa haldið því fram að JFK Jr. hafi einnig verið viðstaddur fjöldafundinn ásamt eiginkonu sinni Carolyn Bessette-Kennedy sem lést ásamt manni sínum í flugslysinu árið 1999.
Þá telja sumir aðilar sig einnig hafa séð rapparann Tupac Shakur, sem lést árið 1996, og körfuboltaleikmanninn Kobe Bryant, sem lést árið 2020, á fjöldafundinum.
A lot of QAnons look for anything that can prove their theories and beliefs.
— 2022 Karma (@2022_Karma) January 16, 2022
Here we have some who believe these two people were JFK and Carolyn.
While Pryme Minister who is a part of -48 group posted a picture saying he saw Tupac and Kobe Bryant behind Trump. pic.twitter.com/GWWdAqNh7D