Nokkrir fylgj­endur QA­non sam­særis­kenningarinnar telja að John F. Kenne­dy hafi mætt á fjölda­fund í Arizona til stuðnings Donalds Trumps á laugar­dag dul­búinn sem sá síðar­nefndi. Ljóst er að þeir hafa seilst nokkuð langt í sam­særis­kenningunum í þetta sinn því John F. Kenne­dy, eða JFK eins og hann er gjarnan kallaður, hefur verið látinn í rúm 58 ár og væri auk þess 104 ára gamall, hefði hann ekki verið myrtur í Dallas árið 1963.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem slík kenning skýtur upp kollinum en í nóvember síðast­liðnum söfnuðust nokkrir QA­non fylgj­endur saman við Deal­ey torg í Dallas þar sem JFK var myrtur sann­færðir um að fyrrum for­setinn myndi snúa aftur frá dauðum, á­samt syni sínum John F. Kenne­dy Jr. sem lést í flug­slysi árið 1999, í þeim til­gangi að styðja við bakið á Trump.

Þá telja sumir að JFK Jr. muni verða vara­for­seta­efni Donalds Trumps í for­seta­kosningunum 2024, burt séð frá þeirri stað­reynd að Kenne­dy, líkt og faðir hans, var demó­krati.

QA­non sam­særis­kenningin hefur náð mikilli út­breiðslu á undan­förnum árum meðal hægri­öfga­fólks og stuðnings­manna Donalds Trumps en hún snýst í stuttu máli um það að satanískur leyni­söfnuður sem saman­stendur af valda­miklu fólki haldi úti al­þjóð­legum barna­níðs­hring.

Fylgj­endur sam­særis­kenningarinnar telja Donald Trump vera einu von heims­byggðarinnar gegn þessum illu öflum og þrá því ekkert heitar en að fyrrum for­setinn nái aftur völdum í Banda­ríkjunum.

Stuðningsmenn Donalds Trumps fylktu liði á fjöldafundinum í Florence, Arizona, síðasta laugardag.
Fréttablaðið/Getty

Segja Tu­pac og Kobe Bry­ant einnig hafa verið við­stadda

Að sögn fjöl­miðilsins Vice saman­stendur hópurinn sem trúir á JFK sam­særið af rúm­lega tuttugu manns undir stjórn öfga­leið­togans Michael Protzman, einnig þekktur sem Negati­ve48. Hópurinn ferðaðist rúma 1600 kíló­metra frá Dallas til Arizona til að sækja fundinn á laugar­dag.

Protzman er sagður byggja kenningu sína á þeirri stað­hæfingu að Trump virtist lægri á fundinum en Kari Lake, fram­bjóðandi repúblikana til ríkis­stjóra Arizona. Átti þessi meinti hæðar­munur að sanna það að Trump hefði ekki komið fram í eigin per­sónu heldur væri um að ræða John F. Kenne­dy í dular­gervi.

Aðrir QA­non fylgj­endur hafa haldið því fram að JFK Jr. hafi einnig verið við­staddur fjölda­fundinn á­samt eigin­konu sinni Caro­lyn Bes­sette-Kenne­dy sem lést á­samt manni sínum í flug­slysinu árið 1999.

Þá telja sumir aðilar sig einnig hafa séð rapparann Tu­pac Shakur, sem lést árið 1996, og körfu­bolta­leik­manninn Kobe Bry­ant, sem lést árið 2020, á fjölda­fundinum.