Ás­geir Þór Ás­geirs­son, yfir­lög­reglu­þjónn hjá lög­reglunni á höfuð­borgar­svæðinu, segir að lög­regla verði með aukinn við­búnað um helgina vegna þeirrar ólgu sem verið hefur í ís­lenskum undir­heimum síðustu daga. Ás­geir var gestur Morgunút­varpsins á Rás 2 í morgun þar sem hann fór yfir málið.

Hnífa­á­rás á skemmti­staðnum Banka­stræti Club í síðustu viku, hefndar­að­gerðir í kjöl­farið og hótanir um frekari að­gerðir hafa verið til rann­sóknar hjá lög­reglu undan­farna daga. Bensín- og reyk­sprengjum hefur meðal annars verið kastað í hús og skemmdir unnar á þeim. Þá gengu skila­boð á milli fólks fyrr í þessari viku þar sem varað var við því að vera á ferli í mið­borginni vegna yfir­vofandi hefndar­á­rásar þar sem spjótunum yrði jafn­vel beint að al­mennum borgurum.

Ás­geir var spurður að því í við­talinu hvort lög­regla teldi lík­legt að hefndar­á­rásir yrðu gerðar um helgina.

„Við höfum auð­vitað verið, eins og við sögðum þegar þessi skila­boða­hrina fór af stað snemma í vikunni, verið að reyna að leita upp­runa þessara skila­boða og hvað er raun­veru­legt og hvað er ekki,“ sagði hann og bætti við að eftir því sem lög­regla kemst næst hafi staðið til –og jafn­vel stendur til – að reyna að raska við­skiptum á á­kveðnum veitinga­stöðum í mið­borginni um helgina.

Full­yrðingar um að 300-500 manns muni koma í bæinn með alls­konar vopn, eins og fram kom í skila­boða­sendingum fyrr í vikunni, séu ekki bein­línis trú­verðugar. Að­spurður hvort lög­regla teldi lík­legt að ein­staklingar úr þessum gengjum komi í bæinn og láti til skarar skríða, sagði Ás­geir:

„Við auð­vitað vonum ekki en lög­gæsla byggist ekki á von. Við verðum að vera til­búin þegar við segjumst ætla að verða til­búin og við verðum það.“

Ás­geir vildi lítið segja til um hvernig þessum aukna við­búnaði lög­reglu yrði háttað. „Við upp­lýsum ekki mikið um það sem við erum að gera fyrir fram, en það verða fleiri tæki, fleiri menn og við verðum með lög­reglu­menn sem eru til­búnir að takast á við erfið verk­efni,“ sagði hann.

Bent var á það að bæði sendi­ráð Banda­ríkjanna og Bret­lands hefðu varað þegna sína við því að vera á ferðinni í mið­borginni um helgina og forðast mann­mergð vegna yfir­vofandi hættu­á­stands. Ás­geir segir að lög­regla hvetji fólk ekki til að sitja heima enda verði borgin ekki gefin eftir. Lög­regla verði með aukinn við­búnað þar til þessum væringum lýkur og al­mennir borgarar verði ef­laust varir við aukna lög­gæslu.