Donald Trump, fyrrum Bandaríkjaforseti, varð valdur að því, með fullyrðingum um kosningasvindl, að æstur múgur réðst inn í þinghúsið þann 6. janúar í fyrra, að mati þingnefndar.
Fyrsti opni fundur nefndarinnar hófst á fimmtudag. Í henni sitja þingmenn fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. Nefndinni var falið að rannsaka atburðarás dagsins 6. janúar, en þann dag átti að staðfesta kjör Joe Biden sem forseta.
Fimm létust í árásinni eða í kjölfar hennar.
Repúblíkaninn Liz Cheney á sæti í nefndinni. Segir hún að 6. janúar hafi Trump ætlað að halda áfram að vera forseti, þrátt fyrir að hafa tapað forsetakosningunum löglega. Hún sagði að Trump væri enn að reyna að sannfæra fólk um að kosningunni hafi verið stolið, jafnvel þótt hann vissi sjálfur að það væri lygi.
Næsta mánuðinn mun þingnefndin halda sex fundi til þess að kynna niðurstöður úr næstum árs langri rannsókn um atburðarás árásarinnar þann 6. janúar.